Greining og meðferð sjúkdómsins hefur reynst flókin, meðal annars vegna þess hversu fá tilfellin eru á heimsvísu. Verið er að meta árangur ensím uppbótarmeðferðar og langtímaáhrif hennar eru ekki fullkomlega þekkt enn sem komið er. Vegna þessa og vegna nýlegrar fjölgunar tilfella á Íslandi var ákveðið að setja á fót teymi sérfræðinga til þess að styðja við og veita ráðgjöf varðandi greiningu og meðferð. Teyminu er ætlað að samhæfa greiningu, skimun, meðferð, eftirlit, rannsóknir og skráningu upplýsinga um sjúkdóminn á Íslandi, auk þess að tryggja sjúklingum og fjölskyldum þeirra erfðafræðilega ráðgjöf.
Fabry teymið mun upplýsa lækna viðkomandi sjúklinga og lyfjanefnd Landspítala reglulega um stöðu sjúkdómsins, fjölda tilfella og fleira. Lyfjanefnd mun taka afstöðu til ensím uppbótarmeðferðar sjúklinga, að fengnu áliti teymisins, og ber ábyrgð á að upplýsingar um þá ákvörðun berist hlutaðeigandi.
Formaður Fabry teymisins er Reynir Arngrímsson, sérfræðilæknir á erfða- og sameindalæknisfræðideild.