Á Landspítala er í gangi átak til að koma í veg fyrir að tóbaksreykur berist inn um innganga og þaðan um byggingar spítalans.
Merkingar hafa verið settar upp hjá Barnaspítala Hringsins, kvennadeildum við Hringbraut, við geðdeildarbygginguna þar og við Landspítala Fossvogi. Gert er ráð fyrir að setja upp merkingar á Grensási, Landakoti og Kleppi í febrúar 2013.
Sett hafa verið upp ílát til að losa sig við tóbak og eru þau svæði greinilega merkt og í nokkurri fjarlægð frá inngöngum spítalans.
Áhersla er lögð á að allir innlagðir sjúklingar sem nota tóbak fái aðstoð við tóbaksleysi og er ítrekað að Landspítali er tóbakslaust sjúkrahús, einnig inngangar og lóð.
Verkefnið er unnið í samvinnu við og styrkt af Embætti landlæknis.