Líkt og fyrir árið 2012 var áhersla lögð á að hafa áætlunina stutta en hnitmiðaða þar sem sett eru fram markmið í jafnréttismálum spítalans, stöðu jafnréttismála lýst og gerð áætlun fyrir árið 2013.
Í jafnréttisáætluninni kemur meðal annars fram að grunnlaun karla og kvenna voru sambærileg nema hjá læknum og verkfræðingum en skýringin á lægri grunnlaunum kvenna í Læknafélagi Íslands er að launaflokkar miðast við starfsaldur og konur voru fleiri í yngri aldurshópum. Karlar fengu oftar greidda fasta yfirvinnu og einnig fleiri yfirvinnutíma og hefur sá munur aukist frá 2010 til 2011.
Fleiri konur en karlar voru í hlutastörfum, hlutfallslega fleiri konur en karlar tóku fæðingarorlof og voru konurnar lengur í fæðingarorlofi. Fleiri konur en karlar tóku foreldraorlof og var orlof kvenna jafnframt lengra en orlof karla. Konur voru oftar fjarverandi vegna veikinda barna en karlar. Athygli vekur að bilið milli kynjanna hefur breikkað í öllum ofangreindum þáttum.