Úr hjálparbeiðni Ingibjargar Birnu 10. október 2012 þar sem hún óskaði eftir stuðningi við átak sitt "Dýrmæt heilsa - Dýrmæt börn":
"Um síðustu áramót hélt ég af stað inn í nýtt ár með þá sýn að heilsan mín og börnin væru það dýrmætasta sem ég ætti og ég gæti gert eitthvað í mínum málum varðandi heilsuna og látið gott af mér leiða í leiðinni.
Ég setti mér þau markmið að þann 12.12.12 ætlaði ég að vera búin að :1) Ganga 1.200 kílómetra (búin með 1.000 km. og þar af gekk ég 100 km. á Hvolsvöll)
2) Synda 120 kílómetra (búin með 100 km.)
3) Missa 12 kíló (tæp 10 kíló farin)
4) Safna 1,2 milljónum króna fyrir Barnaspítala Hringsins ... Barnaspítalinn varð fyrir valinu enda er þar unnið frábært starf og spítalinn öflugur bakhjarl ef eitthvað alvarlegt kemur fyrir börnin okkar.
Ég var ein af þeim sem gaf mér ekki tíma til að hreyfa mig reglulega, setti ekki sjálfa mig í forgang og því fylgdu ýmsir fylgikvillar. Ég er ekki fjallgöngukappi, ekki maraþonhlaupari og ekki gömul íþróttakempa, en ég get gengið og synt og það hef ég svo sannarlega gert. Líðan á sál og líkama er miklu betri en áður."