Norska verkfræðistofan Norconsult vann að áætlanagerðinni með íslensku hönnuðunum. Norconsult hefur komið að 4 nýlegum sjúkrahúsverkefnum í Noregi. Óháðir aðilar, VSÓ ráðgjöf og danska ráðgjafarstofan Niras rýndu áætlunina en hún hefur komið að 6 hliðstæðum sjúkrahúsverkefnum í Danmörku.
Verkefnisstjórn nýbyggingarinnar hefur jafnframt viðhaldið lista yfir þann tækjabúnað sem þarf í nýbygginguna og áætlað kostnað við búnaðinn. Megnið af slíkum tækjabúnaði þarf spítalinn að kaupa óháð byggingarframkvæmdum. Verkefnisstjórnin áætlar verðmæti tækjabúnaðar í nýbygginguna um 12 milljarða. Hluti af honum getur verið eldri búnaður sem flyst til en annað þarf að kaupa. Hversu mikið þarf að kaupa kemur til með að ráðast af ástandi tækjabúnaðar Landspítala þegar nýbyggingin verður tekin í notkun.
Vitað er að endurnýja þarf eldra húsnæði Landspítala sem stendur til að nota áfram í þágu spítalans. Sú endurnýjun verður bæði minni og ódýrari en ef byggt yrði nýtt húsnæði. Kostnaður við að endurnýja eldra húsnæði spítalans er áætlaður um 13 milljarðar og fellur hann til á árunum eftir að nýbyggingin hefur verið tekin í notkun eða 2018-2030.
Verðmæti eigna sem Landspítali flytur úr þegar nýbyggingin verður tekin í notkun má áætla 7-10 milljarða króna. Það fé rennur til ríkisins.