Samningurinn tekur við af samstarfssamningi sem gerður var í apríl 2006 en fyrsti samningur aðilanna var gerður í kjölfar lagabreytinga í maí 2001. Samningurinn markar stefnu fyrir áframhaldandi samstarf LSH og HÍ við uppbyggingu þjónustu, kennslu og rannsókna í greinum heilbrigðisvísinda og öðrum skyldum greinum.
Tilgangur samstarfssamnings HÍ og LSH er ekki síst að skapa umgjörð og sérhæfða aðstöðu fyrir þau svið Háskóla Íslands sem byggja kennslu, þjálfun og rannsóknir á efnivið og starfsemi háskólasjúkrahússins. Jafnframt er tilgangurinn að efla Landspítala sem háskólasjúkrahús, þar sem þjónusta, menntun og vísindi eru samofin í daglegu starfi, og að skapa starfsfólki LSH aðstöðu innan HÍ.
Við endurskoðun samstarfssamningsins var haft að leiðarljósi að einfalda og stytta sjálfan samningstextann enda komin löng og góð reynsla af samstarfi þessara tveggja stofnana. Samstarf HÍ og LSH er svo margslungið og viðamikið að nær er að tala um samofnar stofnanir fremur en samstarfsstofnanir. Landspítali er vettvangur kennslu fyrir allar heilbrigðisvísindagreinar háskólans og stundum er sagt að spítalinn sé stærsta og fullkomnasta kennslustofa landsins.
Í samningnum er m.a. lögð áhersla á vísindasamstarf, þar á meðal á rekstur klínísks rannsóknarseturs (clinical research center) þar sem heilbrigðisvísindastéttir munu sinna fjölbreyttum rannsóknum, bæði innan einstakra greina og með þverfaglegu samstarfi, en vísindarannsóknir eru einn af hornsteinum góðrar þjónustu við sjúklinga.
Rannsóknir Háskóla Íslands og Landspítala eru á heimsmælikvarða. Staða Háskóla Íslands meðal bestu háskóla heims, samkvæmt Times Higher Education, er skýrasti vitnisburðurinn um þann árangur. Enn fremur staðfestir nýleg rannsókn meðal norrænna háskóla og háskólasjúkrahúsa að rannsóknarstarf Háskóla Íslands og Landspítala er í fremstu röð á Norðurlöndunum, hvort sem litið er til afkasta eða áhrifa. Samstarfssamningurinn á milli háskólans og spítalans festir þetta mikilvæga starf enn frekar í sessi og gerir stofnununum kleift að halda áfram að stunda saman hágæðarannsóknir í heilbrigðisvísindum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.
Stýrihópur, skipaður fjórum fulltrúum frá hvorum aðila, hefur yfirumsjón með samningnum ásamt því að móta stefnu í sameiginlegum málefnum stofnananna og framfylgja henni. Vísinda-, mennta- og nýsköpunarsvið Landspítala og Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands fara með daglega framkvæmd samningsins.