Landspítala hefur síðustu fjögur ár verið gert að skera niður um háar fjárhæðir vegna samdráttar í rekstri ríkisins í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Sá samdráttur nemur um 23% af heildarútgjöldum spítalans sé miðað við árið 2007 þannig að hann er nú rekinn fyrir 9 milljörðum króna lægri fjárhæð en árið 2007 (verðlag ársins 2011). Samtals hefur hagræðingin á árunum 2008 til 2012 numið um 32 milljörðum króna á föstu verðlagi ársins 2011.
Tekist hefur verið á við þessar fjárhagslegu hremmingar með því að fækka starfsfólki, miklu aðhaldi í innkaupum og róttækum breytingum á rekstrarformi og skipuriti spítalans. Á þessum tíma hafa laun allra starfsmanna spítalans rýrnað enda óhjákvæmilegt þar sem 70% af rekstri hans eru launagreiðslur. Starfsmenn hafa mætt þessu af miklum skilningi og afrekað það að reka Landspítala innan fjárlaga tvö ár í röð og vonandi tekst það enn í ár.
Á þessu ári hafa margar starfsstéttir á Landspítala lýst óánægju með kjör sín og hefur það nú komið skýrast fram með uppsögnum 254 hjúkrunarfræðinga í 193 stöðugildum. Uppsagnirnar munu að óbreyttu taka gildi 1. mars 2013. Alls starfa 1.348 hjúkrunarfræðingar á spítalanum.
Fyrir Landspítala og sjúklinga hans er þetta grafalvarlegt mál og verið er vinna í því með aðkomu fjármála- og velferðarráðherra. Rétt er taka fram að kjarasamningur hjúkrunarfræðinga gildir til 2014 eins og hjá flestum öðrum stéttum. Stofnanasamningur milli spítalans og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er í gildi en í janúar sl. óskaði félagið eftir endurskoðun hans. Viðræður hafa staðið yfir síðan þá og gengið eðlilega en komið hefur í ljós að hjúkrunarfræðingar vænta kjarabóta í endurnýjun á stofnanasamningi. Í ljósi fyrrnefndra niðurskurðartalna hefur spítalinn augljóslega ekki haft neitt svigrúm til að hækka laun umfram kjarasamning þótt vilji til þess sé mikill.
Vegna uppsagna hjúkrunarfræðinga á Landspítala
Frá skrifstofu forstjóra: