Thorvaldsensfélagið stofnaði sjálfstæðan sjóð í nóvember 2003. Tilgangur og markmið sjóðsins er að styðja og efla hverja þá starfsemi sem lýtur að málefnum barna og unglinga með sykursýki við Barnaspítala Hringsins. Sjóðurinn hefur um áraraðir stutt dyggilega við rekstur sumarbúða barna og unglinga með sykursýki. Einnig hafa styrkir verið veittir til tækjakaupa, viðhaldsmenntunar og fræðsluefnis sem lýtur að sykursýki.
Thorvaldsensfélagið var stofnað 1875 af 24 ungum konum í Reykjavík en þær höfðu verið beðnar að skreyta Austurvöll í tilefni af komu styttu af Bertel Thorvaldsen sem gefin var af borgarstjórn Kaupmannahafnar vegna þúsunda ára byggðar á Íslandi.
Thorvaldsensfélagið hefur rekið Thorvaldsensbazarinn að Austurstræti 4 síðan 1901.
Ljósmynd: Ágóði af verslunarrekstri Thorvaldsensfélagsins í Austurstræti 4 rennur til velferðar barna. Sigríður Brynjólfsdóttir sjálfboðaliði og Kristín Rut Fjólmundsdóttir, annar af tveimur verslunarstjórum Thorvaldsensbazarsins.