Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir hefur verið ráðin deildarstjóri sérhæfðrar endurhæfingargeðdeildar, sem áður hét deild 12 og göngudeildar á Landspítala Kleppi. Eydís verður deildarstjóri beggja deilda.
Eydís lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1987, prófi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands 1988, klínísku meistaraprófi í geðhjúkrun frá Háskólanum í Pittsburgh Bandaríkjunum í lok árs 1989 og námi í klínískri fjölskyldumeðferð frá Kaþólska háskólanum í Leuven Belgíu 1996. Hún lauk viðbótarnámi í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu frá Endurmenntun HÍ og Norræna heilsuháskólanum 2001.
Eydís var lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ um tæplega þriggja ára skeið 1991-1994 og hafði þá m.a. umsjón með og skipulagði viðbótarnám í geðhjúkrun. Hún var hjúkrunarframkvæmdastjóri á barna- og unglingageðdeild (BUGL) 1997-2000 og sviðsstjóri hjúkrunar á geðsviði Landspítala 2000-2009. Eydís var aðstoðarmaður og staðgengill framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala frá 2009 til 2012.
Þann 26. október 2012 varði Eydís doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði við hjúkrunarfræðideild HÍ: „Fjölskylduhjúkrun á bráðageðdeildum: Innleiðing og mat“. Leiðbeinandi doktorsverkefnis var dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir prófessor. Eydís er klínískur lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ og hefur birt ritrýndar greinar í alþjóðleg tímarit í hjúkrunarfræði. Hún hefur verið leiðbeinandi í lokaverkefnum til BS og MS prófs í hjúkrunarfræði við HÍ. Eydís er formaður Geðverndarfélags Íslands.