Karolinska stofnunin er meðal virtustu háskóla heims á sviði heilbrigðisvísinda og stendur á bak við rúmlega 40% rannsókna í Svíþjóð á því fræðasviði. Frumkvöðlaskrifstofa Karolinska var sett á laggirnar í nóvember 2010 og er hlutverk hennar að aðstoða starfsmenn og nemendur þar við að hagnýta hugverk og niðurstöður rannsókna.
Samkomulagið hefur mikla þýðingu fyrir hagnýtingarstarf Háskóla Íslands og Landspítala. Með samkomulaginu verður hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala, sem er samsvarandi aðili og frumkvöðlaskrifstofa Karolinska, betur í stakk búin til að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem berast frá starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands og Landspítala og snúa að hagnýtingu nýrrar þekkingar og tækni. Þá njóta Háskóli Íslands og Landspítali góðs af fagþekkingu og akademískum styrk Karolinska sem hefur um árbil verið fremsti háskóli Norðurlanda í heilbrigðisvísindum.
Háskóli Íslands og Landspítali leggja mikla áherslu á hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna og er undirritun samkomulagsins við Karolinska mikilvægur liður í þeirri viðleitni stofnananna að bæta stoðumhverfi hagnýtingar og stuðla þannig að því að fjölga sérfræðistörfum og auka verðmætasköpun í landinu.