Framkvæmdastjórn Landspítala hefur samþykkt umhverfisstefnu fyrir Landspítala og starfsáætlun umhverfismála fyrir stofnunina 2012 til 2013. Mótun umhverfisstefnunnar byggir á vandaðri undirbúningsvinnu. Fjöldi starfsmanna kom að vinnunni, veitti upplýsingar og kom með ábendingar og tillögur. Einnig voru gerðar greiningar og úttektir sem byggt var á.
Landspítali er einn stærsti vinnustaður landsins og starfsemi hans hefur mikil áhrif á bæði umhverfi og samfélag. Það er hluti af samfélagslegri ábyrgð Landspítala að þekkja vel þessi áhrif og vinna að því að þau séu sem jákvæðust. Til þess var sérstaklega horft við mótun umhverfisstefnunnar og starfsáætlunar umhverfismála.
Í starfsáætluninni eru skilgreind lykilverkefni og markmið sett fram um árangur þeirra.
- Auka flokkun úrgangs og minnka notkun á einnota vörum. Stefnt er að því að minnka um 15% þann úrgang sem fer til urðunar eða í brennslu. Meðal annars verður aðstaða til flokkunar bætt verulega á deildum spítalans í upphafi nýs árs. Um er að ræða mikið magn á hverju ári en samtals er úrgangur frá Landspítala 3,5 tonn á hverjum degi.
- Auka vistvæn innkaup. Markmiðið er að á næsta ári verði í a.m.k. fimm útboðum Landspítala sett fram skýr umhverfisskilyrði. Tryggt verði að innkaupareglur Landspítala nái til vistvænna innkaupa. Birgjar Landspítala eru um 2.800 talsins og innkaup á degi hverjum nema 25 milljónum króna.
- Vistvænni ferðamáti starfsfólks. Stefnt er að því að á næsta ári muni a.m.k. 30% starfsmanna taka strætó, hjóla, hlaupa eða ganga til vinnu. Árið 2011 var þetta hlutfall 21%. Auknir verði hagrænir hvatar sem hvetja starfsmenn til að ferðast með vistvænni hætti til vinnu auk þess sem bættar verði aðstæður fyrir slíka ferðamáta.
- Minnka notkun á rafmagni og heitu vatni. Landspítali notar í dag rafmagn sem samsvarar notkun 4.600 heimila og heitt vatn í sama mæli og 1.600 heimili. Kostnaður vegna þessa er um 275 milljónir á ári. Markmiðið er að minnka þessa notkun um 3% þegar á næsta ári.
- Betri upplýsingar um umhverfismál Landspítala. A.m.k. fjórir umhverfisvísar verði birtir í ársskýrslu fyrir yfirstandandi ár og um leið verði grænt bókhald Landspítala þróað áfram. Tryggt verði að upplýsingar um umhverfismál verði vel aðgengilegar starfsfólki.
- Umhverfisvottun nýs Landspítala. Umhverfisáherslum nýs Landspítala verði fylgt vel eftir og almenningur og verktakar upplýstir um kröfur og áherslur. Öll hönnun og skipulag nýja spítalans miðast við að vera vistvæn og hafa heilsu og vellíðan í fyrirrúmi.
Vinna við öll lykilverkefnin í starfsáætluninni er þegar hafin og koma margir að þeirri vinnu. Vistvænar lausnir eru þróaðar og innleiddar í góðu samstarfi við starfsmenn auk þess sem unnið er með birgjum og öðrum þeim sem best þekkja til hverju sinni til að sem bestur árangur náist.
Umhverfisstefna Landspítala (pdf)
Starfsáætlun umhverfismála 2012-2013 (pdf)
Vefsíða um umhverfismál á Landspítala
Ljósmynd: Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, Birna Helgadóttir, verkefnisstjóri umhverfis- og samgöngumála og Björn Zoëga forstjóri.