Nýr matseðill var tekinn í notkun á Landspítala þann 25. september 2012 sem byggir á nýjum matseðla- og næringarreglum. Markmið með breytingum á matseðli er að bæta þjónustu við sjúklinga. Þar með er stuðlað að bættu næringarástandi sjúklinga á LSH og minni rýrnun á mat og þar með betri árangri LSH.
Helstu fæðisgerðirnar eru tvær eftir breytingu og hægt að panta þær í litlum og heilum skammti.
- Almennt fæði verður hér eftir samsett miðað við næringarreglur eldhúss - matsala (ELM) sem byggja á opinberum ráðleggingum um fæði fyrir sjúklinga frá Svíþjóð og Danmörku. Skammtastærðir minnka frá því sem nú er og orkuþéttni eykst. Það þýðir að skammtar minnka.
- Einnig verður í boði fæði sem samsett er samkvæmt íslenskum manneldismarkmiðum fyrir almenning, kallað RDS. Það hentar fyrir sjúklinga með geðsjúkdóma, sykursýki, hjartasjúkdóma og ýmsa efnaskiptasjúkdóma. Skammtarnir eru stærri en á almennu fæði en gefa jafn mikla orku.
Fyrir sjúklinga með mjög litla matarlist hentar oft „orku- og próteinþétt fæði“. Skammtarnir eru enn minni og fæðið enn orkuþéttara en nýja almenna fæðið. Þetta fæði er einungis boðið í einni skammtastærð.
Fæði með breyttri áferð og sérfæðiSama úrval verður af fæði með breyttri áferð og sérfæði og verið hefur, byggt á ráðleggingum fyrir almennt fæði.
Val fyrir sjúklinga
Sjúklingum býðst nú að velja morgunverð af matseðli þar sem val er um 8 mismunandi matseðla. Gegnum rafrænt pöntunarkerfi deilda geta sjúklingar valið á milli 2 til 3 matseðla í hverri máltíð. Þar með hafa sjúklingar aukin áhrif á meðferð sína á spítalanum og er þess vænst að sem flestir finni máltíð í boði sem hentar þeim.
Næringarástand metið
Mikilvægt er að næringarástand sjúklinga sé metið og fylgst með næringarástandi þeirra á meðan á sjúkrahúsdvöl stendur. Landspítali hefur verið að innleiða ákveðna aðferð við að meta næringarástand. Stigun við mat á næringarástandi leiðbeinir við val á fæði af matseðli fyrir sjúkling.
Matseðlar og stig úr næringarmati
GRÆNIR |
Litlar líkur á vannæringu (0 til 2 stig)
|
GULIR |
Ákveðnar líkur á vannæringu (3 til 4 stig)
|
RAUÐIR |
Miklar líkur á vannæringu (5 stig)
|
Það er mjög mikilvægt að nærast vel og sérstaklega þegar um veikindi er að ræða. Matur er ódýrt lyf og mikilvægur þáttur í meðferð sjúklings á spítala. Mikilvægt er að láta vita hvort minni eða stærri matarskammtar henti sjúklingnum og ef hann vill velja sér morgunmat. Aðstandendur eru hvattir til að færa sjúklingi eitthvað sem honum finnst gott að borða og er næringarríkt.
Ef um sérþarfir er að ræða, t.d. vegna sjúkdóms, ofnæmis eða óþols, er mikilvægt að tilkynna um það við komu á spítalann.
Matsalir Landspítala eru öllum opnir og hægt að kaupa þar heitan mat, samlokur, drykki og aðrar matvörur.