Heilsu- og meðferðargarðurinn ´"Ásgarður" var formlega tekinn í ntokun við barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, föstudaginn 5. október 2012.
Sex nemendur í mastersnámi í verkefnastjórnun (MPM) við Háskólann í Reykjavík tóku að sér að leiða verkefnið frá hugmyndastigi að framkvæmdum og var námsverkefnið unnið í nánu samstarfi við stjórnendur BUGL og rekstrarsvið LSH. Leiðbeinandi verkefnisins var dr. Helgi Þór Ingason, dósent við HR. Það fólst m.a. í því að gera hnitmiðaða þarfagreiningu í samvinnu við starfsfólk BUGL, koma með tillögur að endurbótum, gera kostnaðaráætlun og finna fjármagn til framkvæmdanna. Samhliða þessu voru Einar E. Sæmundsen og Kristbjörg Traustadóttir hjá Landmótun fengin til liðs við verkefnið. Kristbjörg, sem er landslagsarkitekt og nemi í umhverfissálfræði, hannaði og teiknaði garðinn. Samhliða hönnunarvinnu var leitað til seljenda leiktækja, búnaðar og efnis sem hentaði garðinum og uppfyllti allar kröfur og vottun um öryggi.
Þrjú styrktarfélög koma að stuðningi við verkefnið; Hringurinn kvenfélag, Kiwanisumdæmið Ísland – Færeyjar, og Heimilissjóður taugaveiklaðra barna. Þau studdu verkefnið myndarlega og gerðu kleift að hægt var að hefjast handa við það.
Bakhjarl verkefnisins var rekstrarsvið Landspítala og Aðalsteinn Pálsson, deildarstjóri fasteignadeildar, sem tók við verkefninu fyrir hönd LSH. Hönnun og útboðsgögn voru unnin af Landmótun og Eflu verkfræðistofu.
Lóðaframkvæmdirnar voru boðnar út og fékk skrúðgarðyrkjufyrirtækið Lóðalausnir verkið en það er rekið af skrúðgarðyrkjumeistaranum Ragnari Steini Guðmundssyni.
Garðurinn er sá fyrsti sem gerður er sem heilsu- og meðferðargarður fyrir börn og unglinga á Íslandi. Lögð er rík áhersla á að móta umhverfi í samræmi við heilsu og getu einstaklinga þannig að það hafi holl og nærandi áhrif á þann sem nýtur, bæði andlega og líkamlega. Garðurinn býður m.a upp á margbreytilega hreyfingu, frjálsa leiki og boltaleiki. Dvalarsvæði er fyrir samstarf, kyrrðarlundi og samverustaði bæði fyrir einstaklinga og í meðferð stærri hópa.
Undirbúningur:
MPM nemar við Háskólann í Reykjavík: Anna Halldórsdóttir, Auður Kristín Welding, Einar Pétur Heiðarsson, Elmar Bergþórsson, Jóhanna Friðbjörg Sigurjónsdóttir og Ósk Sigurðardóttir.
Hönnun og framkvæmd
Lóð, landslagsarkitektar: Landmótun sf
Lagnir: Efla verkfræðistofa
Verkefnisstjórn: Aðalsteinn Pálsson deildarstjóri, rekstrarsviði LSH
Daglegt eftirlit: Kristbjörg Traustadóttir landslagsarkitekt, Landmótun
Aðalverktaki lóðar: Lóðalausnir hf
Búnaður - söluaðilar
Leiktæki á lóð: Krumma ehf
Húsgögn, fuglahús og fóðurbretti: Ásgarður handverkstæði
Íþróttabúnaður, karfa: Sporttæki ehf
Segldúkar: Seglgerðin Ægir
Gjafir-styrkir
Hringurinn - kvenfélag
Kiwanisumdæmið Ísland – Færeyjar
Heimilissjóður taugaveiklaðra barna
Borð og bekkir: Lionsklúbburinn Fjörgyn
Mark: Sporttæki ehf
Trjágróður: Samtökin Umhverfi og vellíðan,
Gróðrarstöðvarnar Kjarr, Nátthagi, Storð og Þöll
Kostnaður
13,9 milljónir króna