Brjóstholsáverkar eru meðal hættulegustu áverka sem fólk færverður fyrir og eru algeng dánarorsök ungs fólks á Íslandi. Í völdum tilvikum getur opin bráðaskurðaðgerð bjargað lífi þeirra sem koma á bráðadeild með meiri háttar áverka á brjóstholi, t.d. eftir hnífstungur, skotáverka eða alvarleg umferðarslys. Í þessum aðgerðum er brjóstholið opnað sem fyrst og lífshættulegar blæðingar stöðvaðar. Einnig er gert við þau líffæri sem hafa skaðast og hjartahnoði beitt ef hjartað hefur stöðvast. Erlendis hafa þessar aðgerðir verið umdeildar þar sem árangur þeirra hefur verið misjafn.
Í grein íslensku vísindamannanna í Injury er greint frá árangri slíkra aðgerða hér á landi á sex ára tímabili (2005-2010). Á þeim tíma voru gerðar níu slíkar aðgerðir á Landspítala Fossvogi, í öllum tilvikum á sjúklingum í bráðri lífshættu vegna innvortis blæðinga. Flestir sjúklinganna gengust undir aðgerð eftir bílslys eða fall en tveir höfðu orðið fyrir hnífáverka, þar af einn beint í hjarta, og aðrir tveir fengu skotáverka. Alls lifðu fimm sjúklingar af aðgerðina sem er óvenjuhátt hlutfall hjá svo mikið slösuðum sjúklingum. Allir þessir sjúklingar eru við góða heilsu í dag. Annars staðar á Norðurlöndum hefur hlutfall þeirra sem lifað hafa af þessar aðgerðir verið frá 0–18%.
Að meðaltali var blæðing í aðgerðunum 11 lítrar en mest blæddi 55 lítrum sem er tífalt blóðmagn líkamans og þurfti í langflestum tilfellanna að gefa svokallað neyðarblóð (O mínus). Þess má geta að eftir að rannsókninni lauk hafa tvær aðgerðir til viðbótar verið gerðar vegna hnífáverka og skotáverka og lifðu báðir sjúklingarnir.
Í greininni rekja höfundar ástæður fyrir góðum árangri þessara aðgerða hér á landi. Þar má nefna stuttan flutningstíma með neyðarbíl innan höfuðborgarsvæðsins, greiðan aðgang að blóði en ekki síst samhent teymi lækna og hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Á undanförnum árum hefur á Landspítala verið lögð áhersla á samvinnu mismunandi sérgreina í meðferð mikið slasaðra sjúklinga, meðal annars með þjálfun lækna eftir alþjóðlega viðurkenndum stöðlum (Advance Trauma Life Support).
Greinin í Injury byggist á meistaraverkefni Bergrósar Jóhannesdóttur læknanema og nú deildarlæknis á Landspítala. Hún vann verkefnið undir handleiðslu yfirlæknanna Tómasar Guðbjartssonar prófessors og Brynjólfs Mogensen dósents sem báðir starfa á Landspítala.
Nálgast má greinina hér
(Úr fréttatilkynningu)