Forrannsóknarferli blóðrannsókna frá bráðadeild var eitt af þrem Lean-verkefnum sem byrjað var með í nóvember 2011 en er nú lokið. Verkefnið fólst í því að kortleggja og einfalda ferli blóðrannsóknar frá ákvörðun um blóðrannsókn til komu sýnis á rannsóknardeild.
Hópurinn greindi ýmis vandamál/sóun í ferlinu, kom með tillögur að lausnum og prófaði þær. Umbæturnar fólust m.a. í breyttri staðsetningu límmiða á sýnaglös, stöðluðu mati á rauðkornarofi og breyttu verklagi við sýnatöku á bráðadeild. Rauðkornarof varð í u.þ.b. 12% sýna sem komu frá bráðadeild en eftir breytingarnar er það 2,5-3%.
Umbótahópinn leiddi Kristín Jónsdóttir, gæðastjóri á rannsóknarsviði. Aðrir í hópnum voru Anna Ólafía Sigurðardóttir, Edda Sóley Óskarsdóttir, Fjóla Karlsdóttir, Friðrik E. Yngvason, Guðmundur Sigþórsson, Gunnhildur Á Gunnarsdóttir, Helga Jónsdóttir og Sigrún H. Pétursdóttir.
Auk þess árangurs sem áður er nefndur jókst samvinna deildanna og samskipti.Önnur Lean-verkefni sem hófust í nóvember 2011 eru bráðainnlagnir lyflækningasjúklinga og „elektívar" innlagnir skurðsjúklinga í Fossvogi. Þeir umbótahópar eru enn að störfum og prófa meðal annars sérfræðilækni í Triage á háannatíma á bráðadeild, breytta verkaskiptingu aðstoðar- og deildarlækna í lyflækningum í Fossvogi og símainnritun fleiri „elektívra" skurðsjúklinga.
Fimm ný Lean-verkefni hófust vorið 2012
Ferli sjúklinga á lungnadeild
Bráðainnlagnir skurðsjúklinga
Forrannsóknarferli myndgreiningarrannsókna á bráðadeild
Ferli á kjarnarannsóknastofu
„Elektívar“ innlagnir skurðsjúklinga á Hringbraut
Lean eða straumlínustjórnun er aðferðafræði til að greina ferla og sóun í þeim og innleiða breytingar til að koma í veg fyrir sóun og auka öryggi. Í starfsáætlun Landspítala segir : Innleiða LEAN aðferðafræði í áföngum til að auka öryggi og minnka sóun. |