Merkt bílastæði fyrir fatlaða eru 11 talsins auk skammtímastæða og stæða fyrir sjúkra- og ferðaþjónustubíla. Gangstéttar og bílastæði eru upphituð. Hluti bílastæðanna er undir þaki með góðu skjóli fyrir regni og vindum.
Hollvinir Grensásdeildar kostuðu framkvæmdina af söfnunarfé átaksins „Á rás fyrir Grensás“ og með stuðningi velferðarráðuneytis. THG arkitektar, Landark og Mannvit sáu um hönnun en verktakafyrirtækið Hálsafell ehf. um framkvæmdir.
Nýja útisvæðið var formlega tekið í notkun 26. september 2012. Edda Heiðrún Backman klippti á borða. Ávörp fluttu Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Gunnar Finnsson, formaður Hollvina Grensásdeildar, og Stefán Yngvason yfirlæknir. Sigrún Knútsdóttir yfirsjúkraþjálfari stýrði athöfninni.