Skipulagsstjóri Reykjavíkur auglýsir í dagblöðum 10. júlí 2012 tillögu að nýju deiliskipulagi og tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Reykjavík vegna nýs Landspítala við Hringbraut. Tillaga er um skipulag framtíðaruppbyggingar fyrir Landspítala, heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum á stækkaðri lóð við Hringbraut. Einnig um nauðsynlegar breytingar á deiliskipulagi Hringbrautar því samfara.
Í tengslum við þetta er auglýst til kynningar tillaga að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Í fyrsta lagi um að fella út fyrirhuguð Holtsgöng, í öðru lagi að auka byggingarmagn á Landspítalalóð og í þriðja lagi breyta lítillega legu stofn- og tengistíga.
Sameiginlegt er auglýsingunum tveimur að ábendingum og athugasemdum um þær skal skila skriflega eða á netfangið skipulag@reykjavik.is til skipulags- og byggingarsviðs eigi síðar en 4. september 2012. Hægt er að kynna sér þær tillögur sem fyrir liggja í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:20 til 16:15. Tillögurnar eru einnig á vef skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar, www.skipbygg.is.
Þriðja auglýsingin er frá svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins og varðar breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 sem einnig snýr að Holtsgöngum og auknu byggingarmagni á lóðinni við Hringbraut. Tillagan ásamt umhverfisskýrslu liggur frammi á skrifstofum sveitarfélaganna sem eru aðilar að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Hún er einnig á vefnum www.skipbygg.is.
Ábendingum og athugasemdum skal skila skriflega til Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Hamraborg 9, 200 Kópavogi eða á netfangið ssh@ssh.is eigi síðar en 4. september 2012.