Árangur skurðaðgerða vegna lungnakrabbameins hér á landi er mjög góður í alþjóðlegum samanburði og lífslíkur þeirra sem gangast undir slíkar aðgerðir hafa batnað umtalsvert. Þetta kemur fram í grein íslenskra vísindamanna við Háskóla Íslands og Landspítala sem birtist á dögunum í einu virtasta tímariti heims á sviði krabbameinslækninga, Journal of Thoracic Oncology.
Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið sem greinist hjá báðum kynjum á Íslandi. Árlega greinast hátt í 150 einstaklingar með meinið. Helsta læknandi meðferð lungnakrabbameins er skurðaðgerð þar sem æxlið er fjarlægt ásamt nærliggjandi lungnavef. Þessar aðgerðir eru oft umfangsmiklar og hafa stundum fylgikvilla.
Í grein íslensku vísindamannana í tímaritinu Journal of Thoracic Oncology var kannaður árangur þessara aðgerða hér á landi á árabilinu 1994-2008. Greinin byggist á meistarverkefni Húnboga Þorsteinssonar læknanema, nú kandídats á Landspítala, sem vann það undir handleiðslu Tómasar Guðbjartssonar prófessors. Aðrir höfundar voru læknarnir Steinn Jónsson prófessor, Helgi J. Ísaksson, Ásgeir Alexandersson, Guðrún Nína Óskarsdóttir og Rut Skúladóttir.
Í ljós kom að árangur þessara aðgerða hér á landi er mjög góður á alþjóðlegan mælikvarða en 99 prósent sjúklinga lifðu þær af. Einnig höfðu lífslíkur sjúklinga batnað umtalsvert á síðasta fimm ára tímabili rannsóknarinnar. Í rannsókninni kom jafnframt í ljós að af þeim 1.530 sjúklingum sem greindust með lungnakrabbamein á rannsóknartímabilinu gengust alls 26 prósent undir skurðaðgerð. Það er hátt hlutfall miðað við önnur Evrópulönd og með því hæsta sem þekkist í heiminum. Til samanburðar hefur þetta hlutfall verið innan við 10% á Englandi og undir 20% annars staðar á Norðurlöndunum.
Í leiðara Journal of Thoracic Oncology júlí 2012 er sérstaklega bent á góðan árangur hér á landi og íslensku heilbrigðiskerfi hrósað.
- Niðurstöður rannsóknarinnar þykja ánægjulegar í baráttunni við lungnakrabbamein. Næstu skref eru að fjölga enn frekar þeim sjúklingum sem geta gengist undir skurðaðgerð. Til þess þarf að greina fleiri þessara meina á fyrri stigum, þ.e. áður en þau hafa dreift sér út fyrir lungað. Framfarir í myndgreiningu skipta þar máli en ekki síður bætt fræðsla til sjúklinga um einkenni sjúkdómsins þannig að þeir leiti fyrr til læknis.
- Um 90 prósent lungnakrabbameina má rekja til reykinga og öflugar forvarnir gegn þeim eru því langmikilvægasta vopnið í baráttunni við þennan illvíga sjúkdóm. Á þeim vettvangi hefur ýmislegt unnist en hlutfall þeirra sem reykja hér á landi er nú með því lægsta sem þekkist í heiminum. Íslendingar geta því orðið leiðandi á heimsvísu í baráttunni við reykingatengda sjúkdóma eins og lungnakrabbamein.