Landlæknisembættið stendur, í samvinnu við Félag lungnalækna, fagdeild lungnahjúkrunarfræðinga í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Loftfélagið, fyrir átaki í tilefni af Alþjóðlega öndunarmælingardeginum 2012 sem er 27. júní.
Vikuna 24. júní til 1. júlí eru allir sem hafa öndunarfæraeinkenni eins og hósta, slímuppgang eða áreynslumæði hvattir til að fara í öndunarmælingu, hafi þeir ekki þegar fengið greiningu á þessum einkennum.
Talið er að stór hluti þeirra sem hafa langvinna lungnateppu, jafnvel þeir sem hafa langt genginn sjúkdóm, hafi ekki verið greindir og hafi þar af leiðandi ekki fengið neina meðhöndlun.
Á síðasta öndunarmælingadegi leiddu 23% mælinga til frekari læknismeðferðar.