Öldrunarráð Íslands hefur veitt Ingibjörgu Hjaltadóttur, hjúkrunarfræðingi á Landspítala, viðurkenningu fyrir einstakt framlag í þágu aldraðra. Ingibjörg hefur unnið að rannsóknum á sviði öldrunarhjúkrunar og þverfaglegum rannsóknum á sviði öldrunarfræða og auk þess tekið þátt í starfi stýrinefndar um rannsóknir á mælitækjum RAI-staðla á vegum heilbrigðisráðuneytisins (nú velferðarráðuneyti) frá árinu 1993.
Í rannsóknum sínum hefur Ingibjörg m.a. skoðað lífsgæði aldraðra á hjúkrunarheimilum, mönnunarmódel í öldrunarhjúkrun, gæði í öldrunarhjúkrun, næringarástand aldraðara á sjúkrahúsi og meðferð með aðstoð dýra. Ingibjörg hefur tekið þátt í rannsóknum á RAI-mælitækjum (Resident Assessment Instrument) sem notaðir eru á hjúkrunarheimilum, öldrunarlækningadeildum, í líknarþjónustu og heimaþjónustu. Einnig hefur hún tekið þátt í norrænu rannsóknarsamstarfi með notkun þessara mælitækja. Rannsóknir Ingibjargar hafa margar vakið töluverða athygli og fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum.
Ingibjörg lauk BS prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1983 og MS prófi frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands árið 2001. Hún stundaði doktorsnám við heilbrigðisvísindadeild læknadeildar Háskólans í Lundi og varði þar doktorsverkefni sitt 27. janúar 2012. Doktorsverkefnið heitir Gæði umönnunar, þróun á heilsufari, færni og lifun á íslenskum hjúkrunarheimilum á árunum 1996-2009.
Mynd: Ingibjörg Hjaltadóttir tekur við viðurkenningu Öldrunarráðs Íslands úr hendi formanns stjórnar, Péturs Magnússonar, forstjóra Hrafnistu, 22. maí 2012.