Hringskonur afhentu 14. júní 2012 Barnaspítala Hringsins 70 milljónir króna þegar liðin voru rétt 70 ár frá stofnun Barnaspítalasjóðs Hringsins, eina milljón króna fyrir hvert ár. Gjöfin var samþykkt á aðalfundi Hringsins í vor og fer til tækjakaupa eins og tilgreint er í gjafabréfi.
Valgerður Einarsdóttir, formaður kvenfélagsins Hringsins afhenti Jóni Hilmari Friðrikssyni, framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs, gjöfina og sagði þá m.a.:
Hringurinn var stofnaður árið 1904 og aðalverkefnið fyrstu tæplega fjörutíu árin var aðstoð við efnalitla berklaveika sjúklinga. Þar unnu Hringskonur stórvirki. Þær reistu Hressingarhæli í Kópavogi árið 1926 en íbúar þar voru þá einungis 4 talsins. Húsinu var valinn staður sem þótti hreggviðrasamur, skjóllaus og ljótur. Rúm voru fyrir 23 sjúklinga og sex starfmenn ráðnir. Hringskonur fengu ábúð á Kópavogsjörðinni, réðu bústjóra og reistu peningshús. Búið framleiddi mjólk, egg, kjöt og garðávexti fyrir sjúklingana. Heilnæmt fæði vó þungt í meðferð berklasjúklinga fyrir daga berklalyfja. Frú Kristín Vídalín Jacobson, formaður og stofnandi Hringsins, rak þessi tvö fyrirtæki af dugnaði og metnaði. Þetta var á krepputímum en ágóði af búinu var góður.
Þetta er merk saga og því nefni ég þetta nú að farin er af stað vinna í Kópavogi að koma þessum byggingum í fyrra horf. Húsin eru komin í friðunarferli. Gera á sögu þeirra skil og þeim verður gefið nýtt hlutverk. Þarna verður eflaust í framtíðinni vinsæll kjarni til mannamóta og dægradvalar.
Markmiðið sem Hringskonur settu sér fyrir 70 árum stendur enn og merki okkar ber það með sér; Hringurinn Barnaspítali. Þakkir til ykkar allra sem hér vinnið fyrir frábært starf. Þið gerið það sem hægt er fyrir börnin okkar í veikindum þeirra. Aðstaðan er góð og betri en víðast, bæði fyrir sjúklingana og fyrir aðstandendur. Megi svo vera áfram og tengsl okkar náin um ókomna framtíð.