Crossfit Sport og íþróttafélagið Valur hafa afhent kvennadeildum Landspítala 1.750.000 krónur til að bæta aðbúnað fæðandi kvenna.
Kristín Guðmundsdóttir handboltakona fæddi andvana tvíbura á síðasta ári. Hún lýsti á opinberum vettvangi sem afar erfiðri reynslu að hafa þurft að hlusta á grát nýfæddra barna og umgangast konur sem væru komnar að fæðingu meðan hún hefði sjálf verið að glíma við sár vonbrigði og sorg.
Söfnun sem Kristín hratt af stað í vor, ásamt félagsliði sínu Val, til að bæta aðstöðu kvenna á kvennadeildunum vatt síðar upp á sig. Félagar hennar í líkamsræktarstöðinni Crossfit Sport ákvaðu að leggja söfnuninni lið og efndu til áheitasöfnunar í sínum hópi. Framlögin úr báðum þessum söfnunum voru afhent 11. júní að viðstöddum fulltrúum þeirra sem að þeim stóðu, auk Landspítala og Lífs, styrktarfélags kvennadeildanna.