Opnaður hefur verið vefurinn lungnakrabbamein.is. Hann er samstarfsverkefni hóps starfsmanna á Landspítala og fimm lyfjafyrirtækja. Ábyrgðarmaður er Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir og prófessor.
Á Landspítala hefur verið starfandi hópur lækna sem hefur sérhæft sig í greiningu og meðferð lungnakrabbameins. Þessi hópur hefur á síðustu árum staðið að útgáfu bæklinga um lungnakrabbamein fyrir sjúklinga og aðstandendur auk bóka og vísindagreina fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Nýi vefurinn er liður í því fræðslustarfi. Þar geta sjúklingar og aðstandendur fundið fræðsluefni sem tengist greiningu sjúkdómsins og meðferð, ásamt fróðleik um t.d. reykingavarnir og óhefðbundnar meðferðir. Einnig eru á vefnum tenglar við vefsíðu Krabbameinsfélag Íslands og erlendra krabbameinssamtaka. Auk þess hafa læknar, hjúkrunarfólk og nemar aðgang þar að helstu vísindagreinum um lungnakrabbamein sem geta nýst þeim í námi og starfi.
Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið hjá báðum kynjum á Íslandi og sá illkynja sjúkdómur sem dregur langflesta til dauða, eða hátt í 130 einstaklinga á hverju ári. Það eru fleiri en látast úr ristil- brjósta og magakrabbameini samanlagt árlega. Á síðustu árum hafa orðið verulegar framfarir í greiningu og meðferð lungnakrabbameins, framfarir sem virðast bæta árangur og vekja vonir.