Reiðhjólaátakið Hjólað í vinnuna hófst á Landspítala 9. maí 2012 með því að tekin voru í notkun þrjú ný hjólastæði. Þau eru við Hringbraut, Landakot og í Fossvogi. Þetta er fyrsti áfangi í stærra verkefni sem miðar að því að bæta aðstöðu hjólreiðafólks við allar starfstöðvar Landspítala. Verið er að vinna að áætlun um frekari endurnýjun hjólastæða. Björn Zoëga forstjóri tók nýja hjólastæðið undir tengigangi við eldhúsbygginguna á Landspítala Hringbraut formlega í notkun með því að klippa á borða.
Hjólastæðin eru hönnuð þannig að þau henti sem best fyrir starfsfólk og gesti sem kjósa að hjóla til og frá spítalanum. Þau uppfylla viðmið um vandaða hjólreiðaaðstöðu og eru þar m.a. aðeins notaðar hjólagrindur sem hægt er að læsa hjólum örugglega við. Í þessum fyrsta áfanga er unnið að eftirfarandi hjólastæðum:
- Hringbraut: Yfirbyggð hjólastæði undir tengigangi út í eldhúsbyggingu eru tilbúin. Rými fyrir 40 hjól. Gert er ráð fyrir að ný hjólastæði við inngang geðdeildar verði tilbúin í sumar.
- Fossvogur: Hjólastæði eru tilbúin austan megin við inngang þar sem spítalaskutlan stoppar. Rými fyrir 26 hjól. Gert er ráð fyrir að ný hjólastæði vestan við aðalinngang við B-álmu verði tilbúin í sumar. Unnið er að undirbúningi vegna yfirbyggðra hjólastæða.
- Landakot: Yfirbyggð hjólastæði undir brú við aðalinngang eru tilbúin. Rými fyrir 14 hjól. Einnig verða endurnýjuð hjólastæði við starfsmannainngang í sumar.
Áhugi á hjólreiðum fer ört vaxandi í samfélaginu og þess sjást einnig merki á Landspítala. Mörg lið hafa skráð sig til þátttöku í átakinu „Hjólað í vinnuna“ og athygli vakti hve margir þáðu tilboð starfsmannafélagsins í vor um létta yfirferð á reiðhjólum.
Reiðhjólastæði við Hringbraut og í Fossvogi á korti - smella hér
Reiðhjólastæði Landspítala Landakoti |
Reiðhjólastæði á Landspítala Hringbraut
|
Reiðhjólastæði á Landspítala Fossvogi |
Rekstrarsvið kortlagði aðstöðu hjólreiðafólks á spítalanum og óskaði m.a. eftir ábendingum frá starfsfólki. Fjölmargar ábendingar bárust sem nýst hafa mjög vel inn í þessa vinnu. Í kjölfarið voru sett fram viðmið fyrir byggingu nýrra hjólastæða við Landspítala. Við mótun viðmiðanna var tekið mið af ábendingum starfsfólks, samgöngustefnu Landspítala, leiðbeiningum Reykjavíkurborgar um hönnun fyrir reiðhjól og kröfum í umhverfisvottuninni BREEAM.
Ábendingar frá starfsfólki um aðstöðu hjólreiðamanna við Landspítala:
|