Fyrirhugað er að bjóða í vor út framkvæmdir við endurbætur á afmörkuðu útisvæði við barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL). Svæðið er komið til ára sinna og þörf á úrbótum. Garðurinn mætir ekki þörfum skjólstæðinga BUGL, hvorki sem leiksvæði né sem tæki í markvissri meðferð.
Vinna við verkefnið hófst í byrjun janúar 2012 er nemendur í MPM námi við Háskólann í Reykjavík tóku það að sér sem lið í námi sínu. Verkefnið hefur verið unnið í náinni samvinnu við BUGL og Landspítala. Verkefni MPM hópsins hefur falist í umsjón með þarfagreiningu, frumhönnun svæðisins, vali á leikvallatækjum og búnaði, gerð kostnaðaráætlunar framkvæmda og fjármögnun tækjakaupa með styrktarfé.
Kiwanisklúbburinn Elliði styrkir verkefnið um 6 milljónir króna sem verður einkum varið til hönnunar, jarðvegsvinnu og frágangs undirlags. Hringurinn kvenfélag styrkir verkefnið um 2,9 milljónir króna til kaupa á leikvallatækjum og Heimilissjóður taugaveiklaðra barna styrkir um 2,5 milljónir króna, m.a. til kaupa á sólpalli, bekkjum, borðum og plöntum.
Við hönnun garðsins fékk verkefnishópurinn til liðs við sig landslagsarkitekta frá Landmótun, þau Kristbjörgu Traustadóttur og Einar E. Sæmundsen. Skoða teikningu
Markmiðið er að nota megi garðinn allt árið um kring en áætlað er að opna hann í ágúst. Með endurhönnun Ásgarðs, en það verður garðurinn kallaður, verður til umhverfi sem ýtir undir hvers konar hreyfingu og samvinnu svo sem með hreiðurrólu, jafnvægisbraut og jafnvægishring. Ásamt því verður lögð hjólabraut og gert ráð fyrir opnu svæði þar sem hægt er að fara í hina ýmsu leiki. Einnig verður þar að finna stauragöng, álfasteina, fuglahús og bekki. Tré og plöntur verða í garðinum sem gera hann enn skemmtilegri og líflegri. Möguleiki verður einnig á matjurtargarði í beði og í þar til gerðum kerjum á sólpalli en á pallinum verða einnig borð og bekkir fyrir útiföndur og samveru sem og skilrúm með klifurjurtum sem skapar næði. Í garðinum verður kyrrðarlundur sem m.a. er hugsaður með möguleika á fjölskyldusamveru og hópmeðferð.
Allt er þetta gert til að ýta undir alhliða þroska barnanna og standa vonir til að breytingarnar muni hafa jákvæð áhrif á líkamlegt heilbrigði þeirra, sjálfstraust, sköpunargleði, áhuga og nám og muni ýta undir betri samskipti.