Ungur vísindamaður ársins 2012 á Landspítala er Sævar Ingþórsson, líffræðingur og doktorsnemi. Tilkynnt var um það á uppskeruhátíð vísindastarfs á spítalanum, Vísindum á vordögum, sem hófst 25. apríl 2012 með opnun veggspjaldasýningar og vísindadagskrá.
Sævar er fæddur árið 1981. Hann lauk B.S. prófi í líffræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 2006 og meistaraprófi í líf- og læknavísindum frá læknadeild Háskóla Íslands 2008.
Sævar hóf doktorsnám í líf- og læknavísindum við læknadeild HÍ 2009 og starfar á rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum sem er rekin af Magnúsi Karli Magnússyni prófessor og Þórarni Guðjónssyni dósent.
Heiti rannsóknaverkefnis: Hlutverk sprouty próteina í stjórn EGFR boðleiða í brjóstaþekjufrumum
Markmið verkefnisins: Að rannsaka hlutverk og samskipti Sprouty-2 við EGFR týrósín kínasa viðtaka fjölskylduna í greinóttri formgerð brjóstkirtilsins og kortleggja áhrif yfirtjáningar og sívirkrar tjáningar viðtakanna í framþróun æxlisvaxtar í brjóstkirtli. Í rannsóknunum er notast við þrívíð frumuræktunarlíkön og frumulínur, bæði úr heilbrigðum vef og krabbameinsvef, ásamt frumulínu með stofnfrumueiginleika.
Samhliða rannsóknum sínum hefur Sævar leiðbeint íslenskum og erlendum nemum sem koma á rannsóknastofuna í styttri verkefni, ásamt kennslu í vefjafræði við læknadeild.
Sævar hefur hlotið rannsóknastyrki, m.a. frá Rannís, Háskóla Íslands, Landspítala og Göngum saman.