Algjör viðsnúningur hefur orðið í rekstri Landspítala. Að margra mati hefur ykkur tekist hið ómögulega. ... Hér hefur ekki verið hvikað frá því markmiði að halda rekstri innan fjárheimilda.
Aldrei hefur þó verið slakað á kröfum um öryggi og gæði.
Það er ástæða til að þakka sérstaklega skjót og fumlaus viðbrögð Landspítala við PIP brjóstapúðamálinu þegar stjórnvöld ákváðu að bregðast við umfram það sem flestar aðrar þjóðir höfðu gert og bjóða konum brottnám þessara fölsuðu púða. ... Á örskömmum tíma skipulagði Landspítali hvernig verkefninu skyldi sinnt og hófst handa.
Nýja réttargeðdeildin tók til starfa á Kleppi í lok febrúar og gagnrýnisraddir virðast þegar hafa hljóðnað. Opnun deildarinnar í vel búnu húsnæði undir faglegri ábyrgð og stjórn Landspítala verður þessum málaflokki til framdráttar og sjúklingum og aðstandendum þeirra til mikilla hagsbóta.
Við þurfum nýjan Landspítala, um það verður ekki deilt. Nýr Landspítali í húsnæði sem uppfyllir kröfur um nútímalegan sjúkrahúsrekstur felur í sér margvísleg sóknarfæri í nútíð og framtíð. Óbreytt ástand rekstursins í gömlum og ófullnægjandi húsakosti sem er tvístraður út um allar koppagrundir er okkur aftur á móti fjötur um fót og ógnar stöðu okkar og markmiðum um framúrskarandi heilbrigðisþjónustu, öryggi og gæði.
Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins, á ársfundi Landspítala í Salnum í Kópavogi 24. apríl 2012.