Inga Þórsdóttir er heiðursvísindamaður Landspítala 2012. Tilkynnt var um það á vísindadagskrá árlegrar uppskeruhátíðar vísindastarfs Landspítala, Vísindum á vordögum, 25. apríl 2012. Inga er afkastamikill vísindamaður á sviði næringarfræði og hefur ritað fjölda greina í alþjóðleg, ritrýnd, tímarit sem mikið er vitnað í, bókarkafla og ágrip, auk þess að vera virk í fyrirlestrahaldi. Hún er forstöðumaður næringarstofu Landspítala og rannsóknarstofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands, prófessor við HÍ og deildarforseti matvæla- og næringarfræðideildar heilbrigðisvísindasviðs.
Menntun og störf
Doktorspróf í næringarfræði frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð 1989
BSc próf í hjúkrunarfræði, Háskóla Íslands 1980
Næringarráðgjafapróf, Gautaborgarháskóla 1986
Forstöðumaður næringarstofu og rannsóknastofu í næringarfræði 1995-
Prófessor við raunvísindadeild matvæla- og næringarfræðiskorar Háskóla Íslands 1997-2008
Deildarforseti matvæla- og næringarfræðideildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands frá 2008-2012
Í norrænum stýri- og sérfræðingahópi til að ráðleggja um næringarefni 1996, 2004, 2012
Í stjórn FENS “Federation of European Nutrition Societies“ 2011-
Formaður manneldisráðs um árabil, í vísinda- og tækniráði o.fl.
Heiðrað og styrkt
Inga er aðalleiðbeinandi og meðleiðbeinandi fjölda meistara- og doktorsnema. Hún hefur verið heiðruð fyrir vísindastörf sín og m.a. hlotið Fjöregg Matvæla og næringarfræðifélags Íslands, verið heiðruð á Landspítala og hlotið Ásu Wright verðlaunin. Inga var einn af þremur vísindamönnum Landspítala sem hlutu hvatningarstyrki LSH sem veittir voru haustið 2011
Hún hefur fengið fjölmarga rannsóknastyrki s.s. frá Evrópusambandinu (5. og 6. RÁ-RD, SANCO, Leonardo), frá samnorrænum sjóðum (NordForsk og NiCe) og íslenskum sjóðum.
Vísindavirkni á alþjóðavettvangi
Inga Þórsdóttir er í ritnefndum alþjóðlegra vísindatímarita s.s. Acta Pædiatrica, Public Health Nutrition og Annals of Nutrition and Metabolism. Hún er eða hefur verið í stjórn alþjóðlegra samtaka á sviði næringarfræði og vísinda, verkefnastjóri alþjóðlegra vísindaverkefna og umsjónarmaður alþjóðlegra ráðstefna. Inga er meðal annars umsjónarmaður norrænnar næringarfræðiráðstefnu sem verður á Íslandi í júní 2012.