Á ársfundi Landspítala í Salnum í Kópavogi 24. apríl 2012 voru 7 einstaklingar og 2 hópar heiðraðir fyrir vel unnin störf. Starfsmenn spítalans höfðu bein áhrif á val á fólki til að heiðra með því að senda tillögur um vefsíðu á heimavefnum. Í heiðrunarnefnd sátu að þessu sinni Erna Einarsdóttir framkvæmdastjóri, Hildur Helgadóttir innlagnastjóri, Karólína Sveinsdóttir skrifstofustjóri, Páll Matthíasson framkvæmdastjóri og Þórarinn Gíslason yfirlæknir.
Albert Gunnar Arnarson rekstrarstjóri á bráðasviði
Albert er skipulagður, duglegur, viljugur og skapgóður. Allt sem hann gerir er vel gert. Samskipti hans eru byggð á umhyggju og virðingu fyrir sjúklingum, samstarfsfólki og samfélagi. Hann heldur utan um hóp sérhæfra aðstoðarmanna og hefur mikil áhrif með jákvæðri og faglegri framkomu. Fagmennska og öryggi eru hans leiðarljós. Hann sér um lager bráðamóttökunnar og undir hans stjórn hafa lagerar verið sameinaðir og rekstrarkostnaður minnkað umtalsvert. Lagerinn hefur verið notaður sem dæmi um fyrirmyndarframtak.
- Hvar var Albert allt okkar líf?
Bryndís Guðmundsdóttir verkefnastjóri á fjármálasviði
Bryndís hóf fyrst störf á Landspítala sem fjármálaráðgjafi á skurðlækningasviði en hefur undanfarin ár verið verkefnastjóri hag- og áætlanamála á fjármálasviði. Þar hefur hún haft umsjón með gerð rekstraráætlunar LSH af framúrskarandi þekkingu og færni. Bryndís er öflugur sérfræðingur með víðtæka þekkingu á fjármálum. Það er ómetanlegt fyrir eins stóra og flókna stofnun og Landspítali er að hafa slíkan starfsmann í vinnu.
Sigríður Sigurðardóttir verkefnastjóri á vísinda-, mennta- og nýsköpunarsviði
Starfsvettvangur Sigríðar er í stórum dráttum stuðningur við vísindi og fræðslu. Vinna hennar með vísindaráði spítalans sýnir í hnotskurn hvernig framlag hennar tengist gildum spítalans. Umhyggja einkennir viðmót hennar gagnvart umsækjendum í Vísindasjóð LSH. Fagmennska er samheiti yfir vandvirkni Sigríðar, skilvirkni og virðingu fyrir viðfangsefninu hverju sinni. Framþróun er eðli vísindastarfa og því styður starf Sigríðar með vísindaráði framþróun vísinda á Landspítala. Vinna Sigríðar við gæðahandbók sviðsins eykur öryggi samstarfsmanna. Sigríður er einstaklega góður samstarfsmaður og fyrirmynd annarra í vinnubrögðum.
Sigrún Margrét Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur á skurðlækningasviði
Sigrún er einstakur hjúkrunarfræðingur sem hefur starfað nær óslitið á gjörgæslunni í Fossvogi frá upphafi. Hún er fyrirmynd í leik og starfi, góður samstarfsmaður og góður kennari sem er alltaf tilbúinn að veita leiðsögn. Þá er hún einstök manneskja sem kemur fram af virðingu við sjúklinga, aðstandendur og samstarfsfólk.
Sigrún er frábær fagmaður sem hefur tekið að sér ógrynni verkefna ásamt því að vera einn af máttarstólpum gjörgæsludeildarinnar. Hún er flott kona, hafsjór af fróðleik og frábær starfsmaður sem tekur einstaklega vel á móti nýliðum og nemum.
Sigrún er einstök dama.
Þorbjörg Árnadóttir félagsráðgjafi á geðsviði
Þorbjörg er framúrskarandi fagmaður. Hún starfar í útskriftarteymi LSH og er þar frábær liðsmaður og fyrirmynd. Hún hefur sérstaklega lagt sig eftir málefnum aldraðra og er sérfræðingur í flóknum útskriftum þeirra, vistunarmatsferli, fjölskylduvinnu og að finna góðar lausnir í hinu flókna velferðarkerfi. Þorbjörg er alltaf með sjúklinginn í brennidepli, hún er málsvari hans ásamt því að vera frábær kennari og samstarfsmaður.
Þorbjörg er reynslubolti sem hugsar í lausnum.
Þóra I. Árnadóttir deildarstjóri á lyflækningasviði
Þóra hefur sem deildarstjóri á lyflækningadeild unnið óeigingjarnt starf í áratugi þar sem velferð sjúklinga er alltaf í fyrsta sæti. Þóra hefur alltaf yfirsýn yfir deildina sína og veit upp á hár hvernig staðan er hverju sinni og hvað hún getur lagt á starfsfólkið sitt sem ber til hennar ótakmarkað traust. Þóra vegur og metur allar breytingar með gagnrýnum huga og hefur þar sjúklinga og starfsfólk í forgrunni. Hún er ekki alltaf sammála breytingum en þegar ákvarðanir hafa verið teknar, leitar hún bestu lausna og gerir það besta úr hlutunum.
Þóra er aðgengileg, úrræðagóð og skemmtileg.
Þórhildur Jóna Einarsdóttir heilbrigðisritari á lyflækningasviði
Hún Þórhildur JÓNA eins og hún er kölluð er einstök manneskja og starfsmaður. Hún er heilbrigðisritari Hjartagáttar og sinnir því starfi með þvílíkum sóma. Hún hefur mikið jafnaðargeð og er hvers manns hugljúfi. Hún er svo mikilvæg á deildinni að þegar hún er veik þá fer allt á hliðina. Það er yndislegt að vinna með henni því hún er ávallt kát og glöð og til í að hjálpa hinum.
Jóna er nýtin og sparsöm og bendir oft á ódýrari lausnir. Hún hefur líka tekið þátt í að einfalda innskriftarferli dagdeildarsjúklinga á Hjartagátt.
Hún hefur aldrei heyrst segja að eitthvað sé ekki hægt að gera.
Estrid Þorvaldsdóttir verkefnastjóri og Þórgunnur Ársælsdóttir sérfræðilæknir á geðsviði
Estrid og Þórgunnur eru báðar jógakennarar og eiga heiður skilinn fyrir að halda úti frábærum kundalini jóganámskeiðum fyrir starfsmenn og sjúklinga Landspítalans. Þannig stuðla þær að bættri geð- og líkamlegri heilsu þeirra.
Valur Sveinbjörnsson rekstrarstjóri og Guðjón Jónsson rafvirki á rekstarsviði
Valur er aðalhönnuður rörpóstkerfis sem tekið var í notkun Í Fossvogi 23. febrúar síðastliðinn. Rörpósturinn sendir sýni frá bráðadeild G2 inn á rannsóknarstofu E1 og stuðlar að skilvirkari verkferlum, bættri þjónustu og sparnaði. Guðjón Jónsson er hönnuður stýringa rörpóstsins. Rörpósturinn er hönnun og smíði Landspítala. Nýr aðkeyptur rörpóstur hefði kostað um 22 milljónir króna en kostnaður við rörpóst Landspítala er um fimm hundruð þúsund krónur.