Ný viðbragðsáætlun Landspítala hefur verið aðlöguð breyttri starfsemi Landspítala. Hún nær til eitrana, farsótta, geislavár, hópslysa og rýmingar.Unnið er eftir verklagsreglum og gátlistum fyrir alla atburðaflokka til þess að auðvelda starfsfólki LSH starfið þegar mikið reynir á. Verklagsreglur og leiðbeiningar um farsótt á hverjum tíma verður eingöngu að finna á Netinu því farsóttir eru breytilegar og nýjar leiðbeiningar nauðsynlegar hverju sinni.
Viðbragðsstig áætlunarinnar eru þrjú og hafa nú verið tekin upp sömu nöfn og hjá Almannavörnum, þ.e. óvissustig, hættustig og neyðarstig. Viðbragðsstjórn Landspítala ákveður hverju sinni viðbragðsstig Landspítala.
Þrátt fyrir samþætta viðbragðsáætlun Landspítala er nauðsynlegt að hvert svið, deild eða eining, ásamt fagnefndum, riti ítarlegri gátlista eða starfsáætlanir fyrir sína starfsemi til þess að nota þegar á reynir.
Viðbragðsáætlun Landspítala er til bæði í prent- og netútgáfu. Netútgáfan verður mun viðameiri.
- Viðbragðsáætlun LSH er á forsíðu heimavefsins í "gardínulistanum" neðan við Vefvarp LSH undir "Í neyð".
- Ef viðbragðsáætlunin er virkjuð eða af öðrum ástæðum talið nauðsynlegt að hafa hana sem næst hendi birtist þar til gerður tilkynningaborði efst á forsíðu heimavefsins sem hægt er að smella á.
- Viðbragðsáætlun Landspítala er einnig á forsíðu útvefsins.
Ljósmynd: Uppfærslu viðbragðsáætlunarinnar lokið. Garðar Mýrdal, Ólafur Baldursson, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir (aftari röð), Bára Benediktsdóttir og Brynjólfur Mogensen.