Samkomulag um lóðir og skipulagsmál í tengslum við framtíðaruppbyggingu Landspítala og
Háskóla Íslands norðan Hringbrautar var undirritað í húsnæði rekstrarsviðs og Nýs Landspítala í Heilsuverndarstöðinni 16. mars 2012.
Jón Gnarr borgarstjóri, Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra undirrituðu samkomulagið. Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, staðfestu undirskriftina með áritun sinni.
- Í fyrirliggjandi tillögum að deiliskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir að það byggingarmagn sem áður hafði verið gert ráð fyrir á A, B, C og U-reitum verði nú haganlega fyrir komið á A og B reit.
Samningar ríkisins og Reykjavíkurborgar um lóðamál LSH og byggingarrétt fyrir spítalann og HÍ teygja sig allt aftur til ársins 1969. Þeim var síðast breytt árið 2006. Fulltrúar framkvæmda- og eignasviðs og skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar hafa unnið að endurskoðun samninga hennar og ríkisins með það að markmiði að endurheimta byggingarétt á C og U-reit auk þess sem áhersla hefur verið lögð á að Reykjavíkurborg fái í sinn hlut byggingarrétt að randbyggð við Hringbraut, neðan sjúkrahússlóðarinnar. Um er að ræða verðmætt byggingarland í hjarta Reykjavíkur.
Í hlut ríkisins kemur aukið byggingarmagn á A og B-reit skv. núverandi tillögu að deiliskipulagi svæðisins. Jafnframt komast aðilar að samkomulagi um endurskoðun deiliskipulags á norðurhluta svæðisins, þ.e. núverandi athafnasvæði Landspítala.
Samkomulagið er háð endanlegu samþykki og gildistöku deiliskipulags á svæðinu en það hefur um nokkurt skeið verið til umfjöllunar hjá skipulagsráði Reykjavíkurborgar og er niðurstöðu þess að vænta fljótlega. Deiliskipulagið fari síðan í framhaldi af því í lögbundið kynningarferli.