Réttargeðdeild Landspítala var opnuð á Kleppi 29. febrúar 2012 og fyrstu sjúklingarnir af fimm hafa verið fluttir þangað frá Sogni í Ölfusi. Að flutningum loknum verður réttargeðdeildinni að Sogni lokað en hún hefur verið starfrækt þar siðan 1992.
Réttargeðdeildin nýja er á annarri hæð Klepps þar sem áður var deild 12. Húsnæðið er alls um 800 fermetrar og hefur verið endurnýjað í hólf og gólf. Hægt verður að hafa þar 9 sjúklinga og eru aðstæður fyrir þá eins og best verður á kosið fyrir starfsemi af þessu tagi. Í vor bætist við afgirtur útigarður fyrir sjúklingana sem verið er að gera.
Við formlega opnun réttargeðdeildarinnar flutti Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs, ávarp og rakti forsögu þess að starfseminni var fundinn staður á Kleppi og þann faglega og rekstrarlega ávinning sem í því fælist. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði að um jákvæð tímamót væri að ræða í íslenskri geðheilbrigðisþjónustu.