Rörpóstkerfi, sem notað verður til að senda sýni frá bráðadeild G2 í Fossvogi til rannsóknarstofu í sama húsi, var tekið formlega í notkun 16. febrúar 2012 og hefur verið notað síðan með góðum árangri.
Kerfið virkar þannig að blóðsýni eða önnur sýni sem tekin eru og sett í þar til gerð glös eru látin beint í rörpóstinn, þ.e. án annarra hlífa og loft notað til að senda glösin á áfangastað.
Forsagan
Ísleifur Ólafsson, yfirlæknir á rannsóknarsviði LSH, hefur verið að kanna möguleika á að nota rörpóstkerfi til að senda sýni á milli deilda sjúkrahússins. Síðastliðið haust skoðaði hann rörpóstkerfi í Danmörku sem sendi sýnaglös aðra leiðina á milli deilda. Hann hafði í kjölfarið samband við yfirmenn á rekstrarsviði LSH og benti á að þarna væri kerfi sem vert væri að athuga.
Valur Sveinbjörnsson verkfræðingur, sem var þá nýtekinn við sem rekstrarstjóri lagna- og vélahluta viðhaldsdeildar LSH, fékk málið til athugunar. Hann fékk tilboð í danska kerfið en það reyndist vera af þeirri stærðargráðu að á niðurskurðartímum væri slík fjárfesting ekki möguleg. Valur tók sig því til, með nánustu samstarfsmönnum sínum, og hannaði rörpóstkerfi sem yrði innan viðráðanlegs kostnaðar.
Þegar hugmyndir voru fullmótaðar og teikningar tilbúnar fékk Valur fyrirtækið Format til að smíða Plexigler hlutann, Blikksmiðjuna Blikkiðjuna til að smíða plötu til að festa skotbúnaðinn á og kassa til að taka á móti sýnunum þegar þau bærust til rannsóknardeildarinnar. Pípulaningarmenn LSH lögðu rörið sem flytur sýnið að milli deilda. Vélstjórarnir Sigurbjörn Sigurðsson og Páll Siggeirsson settu saman skotbúnaðinn með öllu því sem til þurfti. Guðjón Jónsson rafvirki hannaði og setti upp rafkerfið til stýringar á rörpóstkerfinu.
Rafkerfið, sem í er iðntölva, er haglega unnið og við hönnunina var öryggi og einfaldleiki í fyrirrúmi. Starfsmaður sem sendir sýnaglas af stað þarf ekki að gera annað en að setja það í skotstöðu og kerfið sér um að koma því rétta leið á áfangastað. Þegar sýnið lendir á rannsóknarstofunni þarf að kvitta fyrir móttökunni með því að ýta á takka en við það hættir hljóðmerki hjá sendanda til merkis um að sýnið barst á réttan stað.
Á hönnunartímanum vöknuðu efasemdir um að sýnin þyldu hröðunina í rörpóstinum, þ.e. þegar því væri skotið af stað, krappar beygjur og að skjótast út og lenda í móttökukassanum. Því voru gerðar tilraunir með raunverulegum sýnum og leiddu niðurstöður í ljós að engin teljandi breyting varð á sýnunum á hraðferðinni gegnum rörpóstkerfið.
Kostnaður og framhaldið
Efniskostaður vegna rörpóstkerfisins var nálægt hálfri milljón króna. Við hann bættist aðeins kostnaður við uppsetningu og prófanir. Heildarkostnaður við heimasmíðaða kerfið var því langt innan þess sem aðkeypt rörpóstkerfi hefði kostað. Slíkt kerfi hefði kostað um eða yfir 15 milljónir króna. Áhugi er á því að setja upp fleiri slík kerfi á Landspítala, þau geti sparað sporin og þar með kostnað, eins og þetta rörpóstkerfi er farið að gera nú þegar.
Rörpóstur í nýja spítalanum
Í fyrirhugaðri nýbyggingu Landspítala verður öflugt rörpóstkerfi. Sjá nánar á bls. 5 í bæklingnum Landspítali fyrir framtíðina
Mynd: Valur Sveinbjörnsson, verkfræðingur á Landspítala, hannaði rörpóstkerfið á bráðadeild G2 í Fossvogi.