"Fjárfesting í nýbyggingu Landspítala á næstu árum mun skila sér í betri, öruggari og hagkvæmari heilbrigðisþjónustu til framtíðar,“ segir í formála Björns Zoëga, forstjóra Landspítala, í nýju og fróðlegu kynningarriti sem gefið hefur verið út vegna fyrirhugaðrar stækkunar Landspítala.
Í kynningarritinu er sérstök áhersla á að kynna fyrirhugaða starfsemi á nýjum Landspítala og fjalla um þörfina á stækkun spítalans og bætta aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk.
Þar er m.a. bent á sameiningu ýmissa starfseininga á einum stað sem einn mesta ávinninginn af nýjum Landspítala. Slíkt hafi í för með sér bæði stórbætta þjónustu og aukið öryggi. Á nýjum spítala verður til dæmis rekin ein bráðamóttaka í stað fimm nú.
Þá er fjallað um aukna þörf á spítalaþjónustu á komandi árum vegna þess hversu hratt þjóðin eldist og ýmsar framfarir varðandi aðstöðu sjúklinga, til dæmis byggingu sjúkrahótels.
Landspítali fyrir framtíðina (pdf)