Steinunn Viktorsdóttir, tvítug stúlka sem fæddist fyrir tímann og dvaldi á vökudeild Barnaspítala Hringsins um tíma, kom í heimsókn í desember 2011 ásamt foreldrum sínum Viktori Kr. Helgasyni, Önnu Sigríði Þráinsdóttur og ömmum og öfum með gjafir. Þau færðu deildinni peysur, húfur, sokka, og teppi sem amma Steinunnar hefur hannað og útbúið.
Fjölskyldan hefur af og til fært deildinni gjafir og þá gjarnan í desember. Einnig færði hún vökudeildinni peningagjöf sem mun nýtast vel til að hlúa að séraðstöðu sem nýlega var komið upp á deildinni og nefnist mæðraherbergi. Þar geta mæður nú farið afsíðis og mjólkað sig í friði og ró. Starfsmenn geta líka sest niður þar með mæðrum til að leiðbeina þeim og veita fræðslu um brjóstagjöf og tengd málefni.
Í desember leit á vökudeildina Hulda Rós Ingibergsdóttir, símavörður á Landspítala. Hún gladdi líka starfsfólkið á vökudeildinni með því að færa deildinni að gjöf nokkur teppi sem hún hafði heklað og prjónað að undanförnu. |