Landspítali hyggst sameina starfsemi líknardeildanna á Landakoti og í Kópavogi með fjölgun rúma í Kópavogi og tryggja með því betur rekstur hennar þar til framtíðar.
Oddfellowreglan á Íslandi hefur verið bakhjarl uppbyggingar líknardeildarinnar í Kópavogi um árabil. Deildin varð að veruleika 1. ágúst 1997 fyrir tilstilli Oddfellowreglunnar á 100 ára afmæli hennar. Hún hefur síðan komið með öflugum hætti að stækkun deildarinnar, opnun dag- og göngudeildar hennar og gerð kapellunnar þar.
Aðkoma Oddfellowreglunnar nú verður með svipuðum hætti og við þessa fyrri áfanga líknardeildarinnar. Oddfellowreglan á Íslandi, fyrir hönd Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa og regludeilda, tekur að sér, í samráði við starfsmenn rekstrarsviðs Landspítala, að framkvæma og kosta nauðsynlegar breytingar á húsi 8 og 9. Landspítali leggur til hönnun breytinganna og nauðsynlegar framkvæmdir utanhúss.
Í húsi 9 verður legudeild. Endurinnrétta þarf suðurenda hússins, endurskipuleggja þjónusturýmið og innrétta tengibyggingu sem legudeild. Áætlaður kostnaður er 51 milljón króna og verklok 1. apríl 2012.
Í húsi 8 verður dag- og göngudeild líknardeildar. Þar þarf að innrétta húsið í samræmi við núverandi aðstöðu í húsi 9. Kostnaður er áætlaður 50 milljónir króna og verklok 1. október 2012.
Mynd: Oddfellowreglan á Íslandi gefur framkvæmdir við stækkun líknardeildarinnar í Kópavogi. Ingjaldur Ásvaldsson, Björn Zoëga og Stefán B. Veturliðason. Janúar 2012