Tilkynning frá klínískri lífefnafræðideild og Hjartagátt
Hjarta sértækt (cardiac specific) trópónín T (TnT) er prótein sem eingöngu er myndað í hjartavöðva og losnar út í blóð við skemmd eða drep á hjartafrumum. Þann 2. janúar 2012 verður tekin í notkun ný og næmari aðferð til mælinga á TnT, svokölluð hánæm trópónín T mæling (high sensitivity troponin T).
Þessi nýja mæliaðferð er það næm að hægt er að mæla styrk TnT í blóði hjá heilbrigðum einstaklingum en sá styrkur endurspeglar eðlilega losun TnT frá hjartafrumum við frumuendurnýjun. Við brátt hjartadrep stígur TnT í blóði innan 1-2 klukkustunda frá lokun æðar og helst yfir viðmiðunarmörkum í 5-10 daga.
Við innleiðingu nýrrar mæliaðferðar breytast viðmiðunarmörk TnT í blóði. Ný klínísk viðmiðunarmörk verða 30 ng/L (jafngildir 0,030 mg/L). Þá verður mælieiningin ng/L notuð í stað mg/L til einföldunar.
Fjölmörg bráð og langvinn vandamál, önnur en hjartadrep, geta valdið hækkun á hánæmu TnT. Við greiningu á hjartadrepi er því, sem fyrr, lögð áhersla á mikilvægi þess að meta sjúkrasögu og klínískt ástand sjúklings. Gagnlegt getur verið að endurtaka mælingu á TnT á 1-3 klukkustunda bili ef sterkur grunur er um hjartadrep. Ef styrkur TnT hjá sjúklingi hækkar um 30% á þremur klukkustundum bendir það mjög sterklega til þess að um brátt hjartadrep sé að ræða. Það að fleiri vandamál en hjartadrep geta valdið hækkun á hánæmu TnT undirstrikar mikilvægi þess að mælingar séu eingöngu gerðar þegar vel ígrundaðar ábendingar eru til staðar.
Á Hjartagátt mun hánæmt trópónin T verða mælt á þriggja tíma fresti eða oftar ef klínísk ástæða er til.
Hemólýsa (rauðkornarof) í sýnum gefur falskt of lág gildi fyrir TnT og eru því ekki gefin út svör fyrir sýni sem eru með meiri hemólýsu en 1 g hemóglóbín/L.
Nánar verður fjallað um notagildi hánæms TnT í janúarhefti Læknablaðsins.
Landspítala, 29. desember 2011
Ísleifur Ólafsson yfirlæknir
Davíð O Arnar yfirlæknir
Sigrún Hjördís Pétursdóttir gæðastjóri
Anna Svanhildur Sigurðardóttir þróunarstjóri
Gyða María Baldursdóttir einingarstjóri
Guðmundur Sigþórsson sérfræðilæknir
Ingunn Þorsteinsdóttir sérfræðilæknir