Alls tóku 1.525 starfsmenn Landspítala þátt í samgönguvenjukönnun sem lögð var fyrir þá nóvember 2011. Sambærileg könnun stendur yfir þar sem kannaðar eru ferðavenjur viðskiptavina spítalans og gesta. Niðurstöður þessara kannana verða notaðar við innleiðingu nýrrar samgöngustefnu Landspítala eftir áramót.
Helstu niðurstöður könnunarinnar meðal starfsmanna:
- Langflestum starfsmönnum (87%) finnst auðvelt að komast til og frá vinnu.
- Þeir sem telja erfitt að komast til og frá vinnu…
a)…segja flestir að það sé vegna of mikillar bílaumferðar, kostnaðar og óhentugra almenningssamgangna.
b)…segja fæstir að það sé vegna kostnaðar við almenningssamgöngur, lélegrar aðstöðu á vinnustað eða að tíðni strætóferða sé ekki næg. - Langflestir nota einkabílinn til að komast til og frá vinnu. Aðrir samgöngumátar eru nokkuð jafnir. (Frá árinu 2008 hefur notendum einkabíls fækkað úr 80% í 73% og notendum annarra samgöngumáta fjölgað. Til að mynda eru nú tvöfalt fleiri sem nota strætó.)
- Flestir nota bílinn vegna þess að þeim finnst þeir búa of langt frá spítalanum til að ganga/hjóla og/eða vegna óhentugra almenningssamgangna. Einnig vegna þess að þeir telja ekki raunhæft að nota aðra samgöngumáta því þeir þurfa að koma börnum í og úr leikskóla, skóla, íþróttum, áhugamálum o.s.frv. fyrir og eftir vinnu.
- Flestir (um 60%) gætu hugsað sér að nota annan samgöngumáta en þeir gera nú og flestir þeirra væru til í að hjóla eða nota strætó.
- Það sem helst kemur í veg fyrir að menn færi sig yfir á hjól eða í strætó er of mikil fjarlægð frá vinnustað og að það tekur of langan tíma að nota þessa samgöngumáta.
- Margir væru til í að skipta yfir í strætó en net almenningssamgangna er of gisið (strætó stoppar ekki nálægt heimili eða vinnustað) og tíðni ferða er of lág (tekur of langan tíma að ferðast og strætó gengur ekki á þeim tímum sem hentar vaktavinnufólki).
- Afar fáir virðast hafa áhuga á samnýtingu bíla (car-pool).
- Bættar almenningssamgöngur, ódýrara í strætó og bætt aðstaða til að geyma hjól og skipta um föt eru lykilatriðin ef spítalinn vill draga úr mengun.
- Bætt búningsaðstaða og bætt aðstaða til að geyma hjól eru lykilatriðin ef spítalinn vill stuðla að bættri heilsu með því að fá starfsmenn til að ganga, skokka eða hjóla meira í vinnuna. Veðurfar og vegalengdir eru þó hamlandi.
- Aðeins lítill hluti starfsmanna upplifir óöryggi á lóðum spítalans en vilji spítalinn bæta öryggi þá eru lykilatriðin þau að hafa göngu- og hjólaleiðir betur afmarkaðar frá bílaumferð, bætt lýsing og hertar aðgerðir gagnvart þeim sem leggja "ólöglega"’.
- Flestir starfsmenn búa í póstnúmerum 101, 105 og 108.
Fjölmargar ábendingar bárust er varða almenningssamgöngur og hvaða úrbætur þyrfti að gera á þeim að mati starfsmanna. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að miðað við núverandi þjónustu Strætó sé notkun almenningssamgangna ekki raunhæfur kostur fyrir fjölda starfsmanna Landspítala.
Tilgangur könnunarinnar:
- Að kanna hvort starfsmönnum finnist almennt erfitt eða auðvelt að komast til og frá vinnu. Ætlað til að fá fram hvort sérstök ástæða væri til úrbóta í samgöngumálum vegna ferða starfsmanna til og frá vinnu.
- Að kanna hvaða samgöngumáta starfsmenn nota í dag. Ætlað til að fá grunnviðmið til að meta árangur af samgöngustefnum spítalans á næstu árum.
- Að kanna hvort starfsmenn vilji almennt taka upp aðra samgöngumáta en þeir nota í dag og ef svo hvaða samgöngumátar það væru.
- Að kanna hver er aðalhindrun væri fyrir því að þeir starfsmenn sem vilja taka upp aðra samgöngumáta geri það.
- Að kanna hvaða aðgerðir væru vænlegastar til að fylgja eftir nýrri samgöngustefnu spítalans (boð og bönn, hvatning, styrkir, stuðningur, breytt aðstaða o.s.frv.).
- Fá fram hugmyndir og tillögur starfsmanna með því að leggja áherslu á opnar spurningar.
Spurningar í könnuninni tóku mið af samgöngu- og umhverfisstefnum LSH en einnig samgönguvenjukönnun 2008 og svörum starfsmanna við henni. Algengustu svörin í þeirri könnun voru notuð sem svarmöguleikar í þessari könnun til að stytta svartíma en auk þess gátu svarendur í flestum spurningum sett inn sín eigin svör ef þeir töldu hin forgefnu ekki henta.
Skylt efni:
Samgöngustefna Landspítala (maí 2011)