Margt af besta tónlistarfólki landsins kemur fram á stórtónleikum sem Lionsklúbburinn Fjörgyn stendur fyrir í Grafarvogskirkju fimmtudaginn 10. nóvember 2011. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og eru haldnir til styrktar barna- og unglingageðdeild LSH (BUGL) og líknarsjóði Fjörgynjar.
Eftirtaldir listamenn koma fram og styrkja verkefnið:
Karlakórinn Stefnir undir stjórn Gunnars Ben, Voces Masculorum, Vox Populi, undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar, Egill Ólafsson, Fabúla, Geir Ólafs og Furstarnir, Guðrún Gunnarsdóttir, Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Magnús Þór Sigmundsson, Páll Rósinkranz, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Eyjólfur Kristjánsson, Felix Bergsson, Greta Salóme og hljómsveit, Hera Björk Þórhallsdóttir, Lay Low, Margrét Eir, Raggi Bjarna og Stefán Hilmarsson. Undirleikarar eru Jónas Þórir og Þorgeir Ástvaldsson.
Kynnir: Felix Bergsson.
Aðgöngumiðar kosta 3.000 krónur. Miðasala er til 10. nóvember hjá N1 Ártúnshöfða, Bíldshöfða og Gagnvegi. Einnig hjá Olís Álfheimum, Gullinbrú og Norðlingaholti. Tónleikadaginn verða miðar seldir í Grafarvogskirkju milli kl. 16:00 og 20:00. Húsið verður opnað klukkutíma fyrir tónleikana, kl. 19:00
Þetta er níunda árið í röð sem Lionsklúbburinn Fjörgyn í Grafarvogi stendur fyrir tónleikum sem þessum og aðsóknin hefur alltaf verið mikil. Lionsklúbburinn Fjörgyn hvetur alla, sem tök hafa á, að tryggja sér miða á tónleikana núna og hlýða á marga af bestu tónlistarmönnum landsins í einni stærstu kirkju landsins við mjög góðar aðstæður, um leið og stutt er við gott málefni.