Vökudeild 23D, nýburagjörgæslu Barnaspítala Hringsins, bárust síðsumars gjafir frá hjónunum Magneu Þóreyju Hilmarsdóttur og Finni Bjarka Tryggvasyni og börnum. Þau eignuðust tvíburabræðurna Bjarka Leó og Bjart Elí í janúar 2011 sem dvöldu á deildinni fram undir lok maí.
Magnea og Finnur giftu sig í sumar eftir margra ára búskap og óskuðu eftir því við brúðkaupsgesti sem vildu færa þeim gjafir að leggja frekar fé í söfnun til styrktar vökudeildinni. Fjölskyldan vildi þannig þakka fyrir sig og hjónin vissu sem var að það var orðin bráð þörf á að endurnýja hægindastóla deildarinnar fyrir foreldra. Þar sem svo vel safnaðist gátu þau fært deildinni 12 stóla sem keyptir voru í Dorma og kerru með lúxusstól frá Olavía og Oliver sem kemur sér afar vel fyrir þann hóp nýbura og ungbarna sem dvelja um lengri tíma á deildinni.