Rekstraráætlun Landspítala fyrir árið 2012 er kynnt á 9 fundum Björns Zoëga forstjóra með starfsmönnum á spítalanum fimmtudaginn 13. október 2011.
Vegna niðurskurðarkröfu á fjárlögum ársins 2012, sem nemur um 630 milljónum króna, mun Landspítali bregðast við með ýmsum aðgerðum. Leiðarljós aðgerðanna er að þjappa saman starfsemi spítalans til að vera innan fjárlaga 2012, öryggi sjúklinga, starfsmanna og samfélags (öryggisnet þjóðarinnar), sjúklingamiðuð starfsemi og einfaldari verkferlar.
Niðurskurðaraðgerðirnar eru annars vegar almennar og ná þá til LSH í heild, hins vegar sértækar og snerta þá einstök svið eða starfsemi. Landspítali áætlar að með þessum aðgerðum fækki störfum á spítalanum um 85 manns og verður eftir föngum reynt að nýta starfsmannaveltu við fækkunina.
Helstu þættir í niðurskurðaraðgerðunum:
1) Landspítala Hafnarfirði (St. Jósefsspítala) lokað (-18 rúm). | 180,0 m.kr. |
2) Vörustjórnun, lækkun kostnaðar vegna útboða og endurskipulagning á lagerum. | 100,0 m.kr. |
3) Lækkun lyfjakostnaðar, s.s. vegna útboða og lagerstjórnunar. | 60,0 m.kr. |
4) Þétting á starfsemi geðsviðs, m.a. með flutningi réttargeðdeildar á Klepp. | 54,0 m.kr. |
5) Líknardeildir spítalans sameinaðar í Kópavogi (-4 rúm). | 50,0 m.kr. |
6) Samþætting á starfsemi stoðeininga og breytt skipurit á ýmsum einingum spítalans. | 50,0 m.kr. |
7) Hagræðingaraðgerðir á rekstrar- og fjármálasviðum. | 49,0 m.kr. |
8) Hagræðingaraðgerðir í tengslum við sjúkraskrárritun og skjalavistun. | 25,0 m.kr. |
9) Ýmis smærri verkefni. | 62,0 m.kr. |
Niðurskurðaraðgerðir samtals 630,0 m.kr.