Áhugahópur um bættan aðbúnað á geðdeildum Landspítala stendur fyrir söfnunarátaki dagana 7.-10. október 2011. Starfsfólk og velunnarar geðdeildanna ætla þá að selja "brospinnann" til styrktar málefninu og hafa í því velferð notendanna og umönnun þeirra að leiðarljósi. Verndari landssöfnunarinnar er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn og brospinnar
Brospinnar voru seldir fyrir 700.000 krónur árið 2010. Fyrir það fé voru keyptir sófar og flatskjáir á nokkrar geðdeildir, notendum til mikillar ánægju. Nú vilja "Brospinnar" gera betur. Allar níu legudeildir geðsviðs taka þátt í landssöfnuninni og er takmarkið að selja brospinna fyrir 10 milljónir.
Geðraskanir hrjá um fjórðung Íslendinga á hverju ári. Hluti þeirra þarf að leggjast inn á geðdeildir Landspítala. Margar deildirnar eru komnar til ára sinna og margt þarfnast endurnýjunar við. Hægt verður að leggja því lið með kaupum á brospinnum.
Brospinninn verður til
Fyrir rúmu ári var starfsmaður á geðdeild að reyna að létta lund mjög veiks sjúklings. Starfsmaðurinn teiknaði, klippti og límdi broskarl á tunguspaða sem hann notaði sem pinna og skildi eftir á náttborði sjúklingsins. Þannig kviknaði hugmyndin að brospinnanum. Starfsfólki geðdeilda Landspítala er ljóst að á næstu árum verður lítið fé aflögu úr rekstri til þess að bæta aðbúnað sem mikil nauðsyn er á. Var því stofnað félagið "Brospinnar – áhugahópur um bættan aðbúnað á geðdeildum Landspítalans". Þessi áhugahópur leggur nú mikið á sig í sjálfboðavinnu til þess að bæta aðbúnaðinn.
Landssöfnun
Árið 2010 voru brospinnarnir seldir í fyrsta sinn á götum borgarinnar og voru viðtökurnar mjög góðar. Nú er ráðist í landssöfnun bæði í gegnum vefmiðla og á ákveðnum sölustöðum. Alls munu um 40 starfsmenn taka þátt í sölunni. Brospinninn var af tveimur gerðum í fyrra, karl og kona, en núna bætast við stelpa og strákur.
Stýrihópurinn
Eyrún Thorstensen, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á 32C, Páll Magnússon, starfsmaður á 32C, Heimir Guðmundsson, starfsmaður í iðjuþjálfun, Sylviane Lecoultre iðjuþjálfi og Unnur H. Jóhannsdóttir, M.A í blaða- og fréttamennsku.
Sölustaðir
Brospinninn verður seldur í öllum gerðum af starfsfólki Landspítala á eftirfarandi stöðum:
Eiðistorg, Seltjarnarnesi, 7. og 8. október
Módd, 7. og 8. október
Fjörður, 7. og 8.október
Bónus/Kjarni Mosfellsbæ, 8. og 9. október
IKEA, 8. og. 9. október
Kringlan, 8. og 9. október
Auk þess verður hægt að kaupa brospinna á öllum helstu vefmiðlum landsins.
Söfnunarreikningur: 1175 - 26 - 006812 - 6812100400