Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa, fyrir hönd Oddfellowreglunnar á Íslandi, og Landspítali undirrituðu 16. júní 2011 tímamótasamning um stuðning sjóðsins við framkvæmd klínískra lyfjarannsókna hjá sjúklingum með illkynja sjúkdóma.
Samið var til tveggja ára um greiðslu launakostnaðar sérhæfðra starfsmanna (verkefnastjóra) við klínískar lyfjarannsóknir hjá sjúklingum með illkynja sjúkdóma á LSH og um að að tryggja þá fræðslu og námskeið sem nauðsynleg eru til að treysta gæðaeftirlit rannsókna eins og freskast er unnt.
Oddfellowreglan hefur gegnum tíðina stutt starfsemi spítalans veglega, einkum á sviði krabbameinslækninga, eins og uppbygging líknardeildar og stuðningur við líknarstarf á LSH ber glöggan vott um.
Tímamótasamningur fyrir ýmsar sakir:
- Farið inn á nýjar brautir þar sem ákveðin starfsemi spítalans er styrkt og lögð áhersla á mikilvægi starfsfólks í spítalastarfi og mikilvægi þjálfunar þess til að halda uppi ákveðnum gæðaviðmiðum.
- Tekið áþreifanlegt skref sem undirstrikar hlutverk háskólaspítala þar sem saman fer þjónusta við sjúklinga, menntun og vísindi. Með þátttöku í klínískum lyfjarannsóknum gefst spítalanum tækifæri til að fá til notkunar ný og gjarnan dýr lyf fyrir sjúklinga sína fyrr en ella þannig að framfarir í meðferð illkynja sjúkdóma verða framsæknari og spítalinn verður virkur þátttakandi í þróun þeirrar meðferðar. Þá fá starfsmenn spítalans ný tækifæri til þátttöku í fjölþjóðlegum rannsóknum og ný rannsóknarsvið opnast. Með samstarfi við lyfjafyrirtæki á þennan hátt getur jafnvel náðst fram lækkun lyfjakostnaðar.
- Í samningnum er það nýmæli að settar eru ákveðnar vörður þannig að sérstakt eftirlit verður með framkvæmd hans. Greiðslum er skipt og þær fylgja framvindu og virkni rannsóknanna.