Framkvæmdastjóri lækninga hefur meðal annars það hlutverk að samhæfa faglega þætti í starfsemi spítalans, stuðla að öryggi, gæðum og hagkvæmni, innleiða nýjungar og breytingar, stuðla að framþróun og styðja við kennslu- og vísindastarf.
Ólafur Baldursson lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1990 og hefur stundað læknisstörf á Íslandi og í Bandaríkjunum síðan. Hann lauk sérfræðinámi við í lyflækningum og lungnasjúkdómum frá University of Iowa Hospitals and Clinics árið 2000 og doktorsprófi frá H.Í. 2004, byggt á rannsóknum við University of Iowa. Hann hefur starfað sem lungnalæknir við Landspítala frá 2000, rak læknastofu í Reykjavík 2000-2005, var sviðsstjóri á kennslu- og fræðasviði 2005-2007 og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra lækninga frá 2007-2009. Settur framkvæmdastjóri lækninga október 2009-október 2010 og starfandi frá þeim tíma.
Ólafur er klínískur dósent og hefur birt vísindagreinar í innlendum og erlendum fræðiritum, leiðbeint meistara- og doktorsnemum, verið andmælandi við meistara- og doktorsvarnir og stundað kennslustörf, m.a. sem lektor við lyfjafræðideild H.Í. 2004-2009.
Ólafur mun áfram sinna göngudeildarþjónustu og öðrum klínískum störfum sínum á Landspítala.