Ungur vísindamaður Landspítala 2011 hefur verið valinn Martin Ingi Sigurðsson læknir og doktorsnemi.
Tilkynnt var um valið á Vísindum á vordögum á Landspítala sem hófust 28. apríl og vísindamaðurinn flutti erindi um rannsóknir sínar.
Martin Ingi er fæddur 1982 og lauk kandidatsprófi í læknisfræði við HÍ 2009. Hann lauk kandidatsári á Landspítala 2010 og er í starfi á lyflækningasviði LSH. Hann hefur verið sérlega virkur í rannsóknarstarfi og náð góðum árangri í rannsóknum með samstarfsmönnum sínum.
Martin Ingi hóf doktorsnám við HÍ samhliða læknanámi og verður doktorsvörn í júní 2011. Titill doktorsverkefnisins er Lífupplýsingafræðileg og sameindalíffræðileg greining á eiginleikum DNA metýlunar í erfðamengi mannsins.Hluti verkefnisins var unninn við Johns Hopkins háskólasjúkrahúsið í Baltimore, BNA. Hann hefur m.a. fengið styrki úr Vísindasjóði LSH og Háskólasjóði HÍ.