Vökudeild Barnaspítala Hringsins hafa borist fjölmargar gjafir í gegnum tíðina og starfsemin verið studd ötullega. Helsti og dyggast bakhjarl deildarinnar er kvenfélagið Hringurinn sem með starfi sínu er ávallt vakandi fyrir velferð sjúkra barna hér á landi. Margir aðrir hafa einnig stutt við starfsemina með einum eða öðrum hætti.
Fyrir jólin 2010 bárust vökudeild margar og góðar gjafir. Dagvist eldri borgara Hornafirði sendi handprjónaðar fyrirburahúfur. Deildinni bárust þrír brjóstagjafapúðar frá fyrirbura sem dvalið hefur á deildinni undanfarið og fyrr í haust fékk vökudeild að gjöf frá barni sem dvaldi þar um tíma örbylgjuofn með næmri stillingu .
Þá fékk vökudeildin áheit og starfsfólkinu voru færðar þakkir og ýmislegt góðgæti í kringum hátíðirnar.
Rétt fyrir jólin 2010 komu tvíburasysturnar Arnheiður og Árdís Heiðarsdætur ásamt foreldrum sínum Söru Birgisdóttur og Heiðari Arnfinnssyni og færðu vökudeildinni í jólagjöf rafvædda tvíburavöggu en þær dvöldu einmitt í einni slíkri á deildinni síðastliðið sumar. | |
Feðginin Victor Kristinn Helgason og Steinunn Victorsdóttir komu í heimsókn og afhentu deildinni húfur, peysur, sokka og teppi sem ömmur stúlkunnar höfðu prjónað. Þetta hefur fjölskyldan gert í fjölda ára eða allt frá því Steinunn dvaldi á vökudeildinni fyrir rétt um 19 árum. | |
Á aðfangadag kom Emma Sigrún Jónsdóttir ásamt foreldrum og bræðrum og færði vökudeildinni rúmlega 600 húfur, sokka og teppi að gjöf. Þessi gjöf var verkefni sem móðir hennar Hafdís Pricilla Hanssen setti af stað í haust og nefndi prjónað fyrir vökudeild. |