Arnold Bjarnason hefur fært Landspítala að gjöf háþróaðan kransæðablóðflæðimæli sem notaður verður við hjartaskurðlækningar. Bjarni Torfason, yfirlæknir hjarta- og brjóstholsskurðlækninga, tók við gjöfinni 25. janúar 2011. Verðmæti gjafarinnar er um 13 milljónir króna án virðisaukaskatts.
Tækið er nýjung sem eykur enn gæði kransæðahjáveituaðgerða og gerir aðgerðirnar öruggari fyrir sjúklingana. Það heitir VeriQC TM og er frá fyrirtækinu MediStim. Tækið gefur háskarpa mynd af kransæðum, kransæðaþrengslum og æðatengingum sem gerðar eru í aðgerðinni og sýnir nákvæmlega árangur hverrar hjáveitu bæði varðandi blóðflæði og útlit æðatenginga. Það hjálpar því til við að ná hámarksárangri og lágmarka áhættu við kransæðaskurðaðgerðir, sem eru algengar hjartaskurðaðgerðir.
Ómtækið nýtist einnig við aðrar hjartaskurðaðgerðir þegar mikilvægt er að velja mjög nákvæmlega ákveðinn stað á æð en slíkt getur skipt sköpum við vissar sjaldgæfari aðgerðir og gert þær öruggari en ella. Gjöfin frá Arnoldi er þannig kærkomin og eiga fjölmargir sjúklingar eftir að njóta góðs af henni.