Lionsklúbburinn Fjörgyn afhenti 5. janúar 2011 barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, til eignar tvær bifreiðar, Renault Trafic og Renault Clio, sem klúbburinn hefur haft á rekstrarleigu undanfarin 3 ár. Bifreiðarnar hafa verið nýttar af BUGL fyrir starf með inniliggjandi börnum og unglingum og fyrir vettvangsteymi göngudeildar. Klúbburinn ætlar jafnframt að leggja árlega fram fé til að standa undir almennum rekstrarkostnaði bifreiðanna í 3 ár, meðal annars í samvinnu við N1, Sjóvá og Bifreiðar og landbúnaðarvélar. Við sama tækifæri afhenti Fjörgyn fartölvu, skjávarpa og sýningartjald að gjöf.
Stórtónleikar Fjörgyns í nóvember hvert ár, þar sem fjölmargir listamenn gefa vinnu sína, hafa verið helsta fjáröflun Lionsklúbbsins til stuðnings BUGL. Klúbbfélagarnir vænta þess að gjöfin nú muni annars vegar veita skjólstæðingum BUGL áframhaldandi ánægju og hins vegar auðvelda starfsfólki barna- og unglingageðdeildar samskipti við skjólstæðinga sína heima í héraði.
Lionsklúbburinn Fjörgyn hefur í mörg ár lagt áherslu á að styrkja starf Landspítala fyrir börn og ungmenni. Á árunum 1995 til 2000 færði klúbburinn einn eða í samvinnu við aðra Barnaspítala Hringsins m.a. heilasírita til greiningar á flogaveiki, hitakassa og öndunartæki fyrir nýbura, tvö speglunartæki fyrir maga og ristil, tæki til að greina bakflæði, sérhannað bað fyrir brunasjúklinga og hitalampa og nokkur tæki til að fylgjast með hjartslætti, öndun, súrefnismettun og blóðþrýstingi. Verðmæti þessara gjafa nam þá hátt á annan tug milljóna króna.
Á 10 ára starfsafmæli sínu árið 2000 færði klúbburinn, ásamt Lionsklúbbnum Fold, augndeild Landspítala sjónhimnurita að gjöf. Verðmæti þess tækis var þá um 1,7 milljónir.
Seinni árin hefur klúbburinn beint kröftum sínum í að styrkja BUGL með rekstri tveggja bifreiða auk gjafa eins og að framan voru nefndar. Í nóvember 2003 stóðu Lionsmenn í Fjörgyn fyrst fyrir stórtónleikum í Grafarvogskirkju og hafa þessir árlegu tónleikar síðan orðið að föstum lið í lífi fólks sem kemur ár hvert og styrkir gott málefni og nýtur um leið tónlistarveislu þess mikla fjölda listamanna sem hefur lagt Fjörgyn lið og Fjörgynjarmenn segjast standa í mikilli þakkarskuld við.