Ályktun frá fagráði ljósmæðra á Landspítala:
Fagráð ljósmæðra á Landspítala fjallaði á fundi 5. nóvember 2010 um boðaðan niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni.
- Þegar hagræða á í heilbrigðisþjónustunni er nauðsynlegt að hafa samráð við þær fagstéttir sem þjónustuna veita og gera ítarlega kostnaðar- og þarfagreiningu m.t.t. hagkvæmni þjónustunnar og öryggis skjólstæðinga. Fagráð ljósmæðra á Landspítala lýsir áhyggjum sínum yfir þróun mála í barneignarþjónustu og kallar eftir heildstæðri stefnumótun frá heilbrigðisyfirvöldum áður en ráðist er í breytingar sem ekki skila raunverulegum sparnaði.
- Yfirvofandi fækkun fæðingarstaða á Íslandi, skerðing á sólarhringsþjónustu ljósmóður á landsbyggðinni með tilheyrandi röskun og óhagræði fyrir barnshafandi konur og fjölskyldur ógnar öryggi þeirra.
- Rannsóknir sýna að nærvera og samfelld þjónusta sömu fagaðila hefur jákvæð áhrif á öryggi og útkomu fæðingarhjálpar. Skoðanir og fræðsla í meðgönguvernd, yfirseta í fæðingu og samfelld heimaþjónusta sömu ljósmæðra í sængurlegu eru dæmi um persónubundna þjónustu sem hefur hagkvæm áhrif, fylgikvillum, inngripum og óþarfa innlögnum á sjúkrahús fækkar. Skipulagsbreytingar þar sem þetta er haft í huga stuðla að sparnaði í heilbrigðiskerfinu þegar til lengri tíma er litið.
- Fagráð ljósmæðra á Landspítala ítrekar mikilvægi samræmingar og samvinnu milli heilbrigðisstofnana og stjórnvalda um barneignarþjónustu á mismunandi þjónustustigi í þágu barnshafandi kvenna og samfélagsins alls.