Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands hefur enn og aftur komið færandi hendi til líknardeildar aldraðra á Landkoti og gefið henni rafdrifið rúm sem hægt er að lengja, standlyftara með tveimur seglum og segllyftara, einnig með tveimur seglum. Slíkur lyftibúnaður gerir sjúklingum með skerta líkamlega færni kleift að komast úr rúmi og í stól eða á salerni og léttir líkamlegt álag á starfsmenn.
Kvennadeildin veitti líknardeild aldraðra öflugan stuðning þegar deildin var opnuð árið 2001 í formi gjafa svo sem sjúkrarúma, náttborða og sjónvarpa á allar níu stofur deildarinnar. Síðar færði kvennadeildin líknardeild aldraðra loftskiptar loftdýnur sem hafa komið að góðum notum sem hjálpartæki til að fyrirbyggja þrýstingssár hjá sjúklingum sem hafa verið of máttfarnir til að komast framúr rúmi.
Meginhlutverk líknardeildarinnar er að veita öldruðum einstaklingum með sjúkdóma á lokastigi eins góða einkennameðferð og kostur er. Flestir hafa krabbamein en einstaklingar með ýmsa aðra sjúkdóma leggjast einnig inn á deildina, svo sem fólk með hrörnunarsjúkdóma í taugakerfi og lokastigs hjartasjúkdóma. Stór hluti þess hefur verulega skerta líkamlega færni. Hjálpartæki af því tagi sem nú hafa verið færð deildinni eru því afar mikilvæg.
Helsta tekjuöflun kvennadeildarinnar eru sjálfsalarnir á Landspítala og árlegur jólabasar. Ágóði af þessari starfsemi rennur til góðgerðamála eins og þessi höfðinglega gjöf sýnir.